Bandaríska fasteignafélagið WeWork er farið á hausinn. Þegar best gekk var það metið á 47 milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir hátt í 7.000 milljörðum íslenskra króna, en gengi þess hafði þó dalað stöðugt frá árinu 2019. Rekstur þess byggði á útleigu samvinnurýma, opinna skrifstofurýma þar sem notendur leigja afnotarétt og voru í fyrstu talin henta einyrkjum og sprotafyrirtækjum vel, og síðan um hríð nær öllum rekstri.
Rekstur WeWork fékk á sig fleiri en eitt högg á síðustu árum en það sem reið þó ef til vill baggamuninn, að sögn helstu miðla, var að eftirsókn eftir því að dvelja í sameiginlegum vinnurýmum á við skrifstofur hefur enn ekki náð sér á strik í Bandaríkjunum eftir að Covid-19 kom til sögunnar. Í helstu borgum landsins er nýting skrifstofurýma enn aðeins um 50% af því sem hún var fyrir faraldurinn, þar sem fleiri en nokkru sinni kjósa heldur að vinna heiman frá sér.
Aðdragandinn um aldamót
Í kringum aldamót, þegar fartölvur höfðu rutt sér til rúms, annars vegar, og þráðlausar nettengingar urðu algengar hins vegar, breyttist notagildi kaffihúsa víða um heim, sem nokkur fjöldi fólks tók að nýta sem vettvang fyrir störf. Námsfólk, sjálfstætt starfandi, fólk í menningargeiranum og jafnvel stjórnendur á öðrum sviðum, sáu sér leik á borði að geta unnið í notalegri rýmum en hefðbundnum skrifstofum og notið þar félagsskapar þegar við átti.
Svonefndir frumkvöðlar, sem einkenna ekki síst bandarískt viðskiptalíf, sáu sér leik á borði í þessari þróun og tóku að skipuleggja skrifstofurými á svipuðum nótum: sameiginleg vinnurými sem notendur gátu keypt aðgang að, með leigu til lengri eða skemmri tíma og með meiri eða minni réttindum til afnota. Þessi opnu vinnurými, þar sem engum eða fáum er ætlað að vera með fasta vinnustöð heldur færa sig milli borða eftir því hvað er laust hverju sinni, þóttu mörgum heillandi tímanna tákn, svo mjög að þau hafa síðan rutt sér til rúms við rótgrónar stofnanir á við Háskóla Íslands.
Áratugur opinna vinnurýma
Á sama tíma voru stofnuð ótal félög fram til að annast rekstur eins eða nokkurra rýma af þessum toga. Eitt fyrirtæki ætlaði sér gott betur: WeWork var stofnað í New York borg árið 2010, af Adam Neumann og Miguel McKelvey. Fyrsta vinnustöð fyrirtækisins, á ensku lýst sem „eco-friendly coworking space“ eða umhverfisvænu samvinnurými, opnaði árið 2010 á Manhattan. Hafi einhver við fyrstu sýn getað villst á samvinnurýminu og rúmgóðu kaffihúsi var reksturinn að baki þó af öðrum toga: árið 2013 hafði fyrirtækið náð samningum við 350 sprotafyrirtæki um að hýsa starfsstöðvar þeirra, árið 2014 var það orðinn sá leigusali skrifstofurýmis sem var í hröðustum vexti í New York, og stærstu fjármálafyrirtæki og fjárfestingarsjóðir heims kepptust um að eiga aðkomu að félaginu: JPMorgan Chase og Goldman Sachs voru meðal þeirra sem eignuðust hlut í því. 2015 rak félagið 54 samvinnurými, flest í stærstu borgum Bandaríkjanna, en einnig í London, Amsterdam og Tel Aviv.
Árið 2016 hafði félagið safnað 1,7 milljörðum dala í hlutafé, 2017 færði félagið enn út kvíarnar, meðal annars í Kína, 2018 varð samstarf þess við bandaríska háskóla áberandi, þar sem það tók að sér rekstur á samvinnurýmum námsmanna, um leið og það keypti 60 milljón dala einkaþotu fyrir forstjórann. Einhvers staðar á leiðinni tók félagið að sanka að sér hefðbundnari skrifstofurýmum og leigja þau út líka. Um þær mundir hóf félagið undirbúning skráningar á hlutabréfamarkað. Og þá tóku brestir að koma í ljós. Árið 2018 reyndist félagið hafa tapað 1,6 milljörðum dala, á meðan velta þess nam „aðeins“ 1,8 milljörðum. Í upphafi árs 2019 var félagið metið á 47 milljarða dala en hrapaði í áliti fjárfesta á nokkrum vikum þar til rætt var um yfirvofandi gjaldþrot þess.
Skrifstofur í frjálsu falli
Árið 2020 brást WeWork við áhyggjum fjárfesta og tilkynnti meðal annars að ekki yrði lengur endurgjaldslaus bjór í boði fyrir leigjendur í samvinnurýmum þess í Bandaríkjunum, eins og hafði víst verið raunin fram að því. Sú tilhögun rataði í fyrirsagnir en ráðist var í töluvert viðamiklar breytingar og stofnandanum Neumann, sparkað úr fyrirtækinu til að liðka fyrir endurskipulagningunni. Neumann fékk 445 milljónir dali í heimanmund úr forstjórastólnum og hefur síðan stofnað nýtt fasteignafélag.
Stuttu síðar brast loks heimsfaraldurinn á. Fyrst voru fasteignafélög hrjáð af sóttvarnaraðgerðum yfirvalda, sem ýmist skipuðu eða hvöttu fólk til að halda sig heima. Þegar stjórnvöld hættu að gera kröfur um slíkt kom í ljós að margir kunnu betur við sig heima við en á skrifstofum og neituðu að snúa aftur á fyrri starfsstöðvar. Eins og getið hefur verið í fyrri umfjöllun Samstöðvarinnar er raunin enn sú, í stærstu borgum Bandaríkjanna haustið 2023, að nýting á skrifstofurýmum mælist aðeins um 50% af því sem hún var fyrir heimsfaraldurinn. Meðal helstu ástæðna sem bandarískt skrifstofustarfsfólk tilgreinir fyrir því að vilja heldur vinna heiman frá sér er tímasparnaðurinn sem felst í því að sleppa við ferðalög til og frá vinnu og hvíld frá smitsjúkdómahættu.
Draumurinn liðinn
Að sögn The Guardian reyndi WeWork að laða sig að þessum breyttu aðstæðum og staðsetja sig á markaðnum sem umboðsaðili sérlega sveigjanlegra skrifstofurýma, á meðan fyrirtæki og starfsfólk endurmátu hvernig, hvar og hvenær fólk vildi vinna. Það lánaðist ekki. Verðmat WeWork hélt áfram að síga og undir lok októbermánaðar 2023 var fyrirtækið metið á 140 milljón dali, eða um 0,3 prósent af áætluðu verðmæti þess fjórum árum fyrr.
Og í gær, á mánudag, lögðu forsvarsmenn félagsins sjálfs loks beiðni um gjaldþrotaskipti – „chapter 11 bankruptcy“ – fyrir dómstól í New Jersey. Miðað við eignastöðu fyrirtækisins um mitt þetta ár skilur það eftir sig 906 þúsund skrifborð á 777 starfsstöðvum í 39 löndum. Í umfjöllun The Guardian um gjaldþrotið kemur fram að ritstjórn miðilsins í Bandaríkjunum leigir skrifstofurými sitt af WeWork. Og eru þá ótalin menningarleg áhrif fyrirtækisins: Vorið 2022 birtist í tímaritinu Wired grein undir yfirskriftinni „Everything’s a WeWork Now“ – Nú er allt WeWork, með skírskotun til þeirra áhrifa sem fyrirtækið hefði haft á útbreiðslu hugmyndarinnar um opin vinnurými. Þeim reimleikum er sjálfsagt hvergi nærri lokið þó að fyrirtækið sé fallið. Segja má að draugurinn af WeWork sé nú innmúraður í ótal byggingar um allan heim, frá höfuðstöðvum banka til vinnurýma í háskólum.
Heimildir: BBC Wikipedia Built in NYC Business Insider The Guardian