Hvernig er hægt að fá 50 milljarða krónur og tapa þeim á einungis 3 árum? Að fara svo illa með peningana að engar eignir eru eftir fyrir skiptastjóra að skipta? Er mögulegt að einhver sé með svo lélegt „business“ vit eða er ekki allt sem sýnist? Þessar spurning spyr Margrét Rósa Sigurðardóttir sig í færslu sem hefur farið víða á Facebook. Maðurinn sem afrekaði þetta heitir Bjarni Benediktsson og er best þekktur sem formaður Sjálfstæðisflokksins.
Margrét Rósa deilir mynd, sem sjá má hér neðst, af skjali sem er nú alræmt. Við þá mynd má bæta að ásamt Bjarna þá sátu einnig í stjórn aðrir nú alræmdir menn. Þar á meðal er faðir Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar og helsti stuðningsmaður hans. Bjarni hefur því vafalaust þekkt Sigmund áður en þeir stofnuðu ríkisstjórn, því hann hafði verið í vafasömum viðskiptum með föður hans mörgum árum fyrr.
En Margrét Rósa skrifar:
„Í lok árs 2005 var stofnað félag sem var slitið 3 árum seinna í kjölfar gjaldþrots upp á 50 milljarða (núvirt).
Eigendurnir lögðu ekkert fram. Þeir fengu allt að láni og töpuðu öllu.
50.000.000.000 krónur.
Hver lánar manni 50 milljarða? Og hvernig tapar maður því öllu á svona stuttum tíma?
Kannski eru þetta ekki réttar spurningar. Betra væri að spyrja:
HVER fær lánaða 50 milljarða? Og, í hvað fóru peningarnir?“
Líkt og fyrr segir þá deilir hún mynd úr ársreikningi félags en þar má sjá „nöfn spaðanna sem hringja í bankastjórana og fá það sem þeir vilja“, líkt og Margrét Rósa kemst að orði. Hún heldur svo áfram:
„Peningarnir fóru í „fjárfestingar“ t.d. fasteignir í fjarlægum löndum en þó aðallega var aurunum dælt inn í hringekju skúffufyrirtækja í eigu sömu og skyldra aðila. Svona hringekjur snúast hratt og eðli málsins samkvæmt skjótast af henni brauðmolar í allar áttir. Þó örugglega ekki í neitt félag sem BB á í útlöndum.“
Eitt sem margir hafa ekki áttað sig á, er að þetta félag hafði engan starfsmann svo ekki var launakostnaður að sliga það. Þeim tókst að setja félagið í svo ofboðslegt gjaldþrot án þess að geta kennt neinum starfsmanni á plani um það.
„Til að skilja betur um hverslags starfsemi er að ræða þá var það stjórn félagsins sem sá um allt. Það voru engir starfsmenn. Það var ENGINN launaður starfsmaður í félagi sem tapaði 50 milljörðum! Skiptastjóri þrotabúsins, Jóhannes Ásgeirsson, skrifaði í skýrslu: „Í stuttu máli verður að segja að rekstur félagsins hafi verið glórulaus,“ segir Margrét Rósa.
Hún segir að lokum að það sé einfaldlega tvennt sem geti skýrt þetta. „Það er aðeins tvennt sem kemur til greina: Þessir menn sem hér um ræðir eru annaðhvort algjörir afglapar í fjármálum eða glæpamenn. Þegar þessu ævintýri lauk lá beinast við hjá einum stjórnarmanna að gerast formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og svo auðvitað fjármálaráðherra til margra ára. Máttur ehf hét þetta félag sem er sko aldeilis ekki það eina sem stjórnarmenn þess áttu aðkomu að á þessum árum. Þau fóru öll á hausinn í milljarða- og tugmilljarða gjaldþrotum. Til hamingju Ísland!“
