Fellesforbundet, regnhlífarsamtök norskra stéttarfélaga launafólks í einkageiranum, tilkynnti á miðvikudag að það muni síðar í þessum mánuði stöðva flutninga á Tesla-bílum til Svíþjóðar um hafnir Noregs, í samstöðu með verkfalli vélvirkja í Svíþjóð. Alls eru 160 þúsund meðlimir í aðildarfélögum Fellesforbundet. Þannig slæst norska verkalýðshreyfingin í för með þeirri dönsku, en í Danmörku gaf stéttarfélagið 3F út hliðstæða tilkynningu á þriðjudag. Þá er gert ráð fyrir því að hliðstæð tilkynning berist frá Finnlandi í dag, fimmtudag.
Talsmenn félagsins segja að það hyggist senda Tesla skýr skilaboð og gera það sem þarf til að tryggja að engir bílar á þess vegum berist til Svíþjóðar gegnum Noreg. Ekki hefur komið fram nákvæmlega með hvaða hætti sendingarnar verða stöðvaðar, en fyrirhugað er að aðgerðirnar hefjist þann 20. desember.
Jørn Eggum, formaður Fellesforbundet, sagði í yfirlýsingu að rétturinn til að taka höndum saman við samningagerð væri sjálfsagður hluti af vinnumarkaði Norðurlandanna. „Við getum ekki sætt okkur við að Tesla undanskilji sig því kerfi,“ sagði hann.
Engar númeraplötur án kjarasamninga
Í Svíþjóð hefur fjöldi félaga, að frumkvæði stéttarfélagsins IF Metall, staðið að verkfallsaðgerðum gegn Tesla síðan í október, til að knýja á um að bandaríski bílaframleiðandinn geri kjarasamninga við stéttarfélög í Svíþjóð. Forstjóri Tesla, Elon Musk, hefur lýst yfir andúð á tilvist stéttarfélaga yfirleitt og segir að hann myndi líta svo á að eitthvað hefði mistekist í rekstri fyrirtækisins ef starfsfólk þess gengi í stéttarfélög.
Jafnvel áður en dönsk og nú norsk stéttarfélög komu að vinnudeilunni í Svíþjóð hafði Musk lýst undrun sinni á að mæta samstöðu sænskra stéttarfélaga. Meðal annars hafa starfsmenn sænska póstsins neitað að afgreiða númeraplötur til fyrirtækisins, sem fyrir vikið hefur gengið illa að skrá nýja bíla í landinu. Tesla virðist hafa fundið tímabundna leið framhjá þeim aðgerðum með því að sækja númeraplöturnar beint til fyrirtækisins sem framleiðir þær. Bloomberg fréttaveitan greindi aftur á móti frá því á miðvikudag að áfrýjunardómstóll hefði nú afturkallað undanþáguna sem gerði fyrirtækinu það kleift.
Tesla framleiðir enga bíla í Svíþjóð en landið er fimmti stærsti markaður Tesla í Evrópu.
Yahoo finance greindi frá.