Ýmsar vendingar eru í loftinu í málefnum Palestínu sem hafa með utanríkisstefnu Íslands að gera en á sama tíma fordæmir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra Palestínumenn sem fengið hafa hæli á Íslandi sem af ótta um afdrif ættingja sinna hafa tjaldað á Austurvelli til að ná eyrum hans. Er hann í klókum leik til að ná til ysta hægrisins sem kvittar undir útlendingaandúð eða er hann gjörsamlega ólæs á stöðuna?
Helen María Ólafsdóttir öryggisráðgjafi hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna skrifar á FB veginn sinn seint í gærkvöld „Nú þegar yfirvöld í Ísrael hafa gefið út yfirlýsingu um það að það verði ekki sjálfstæð Palestína, hvað gera íslensk stjórnvöld sem hafa viðurkennt Palestínu?!“ Þess má geta að á þriðjudaginn var gaf Netanyahu út þá yfirlýsingu í samtali við Jo Biden Bandaríkjaforseta að eftir stríðið á Gasa yrði ekki til sjálfstæð Palestína og aldrei svo lengi sem hann yrði við völd.
Helen deilir einnig myndbandi af samfélagsmiðlinum X þar sem má sjá yfirlitsmyndband frá leyniþjónustu Ísraels sem hún segir að stæri sig þar af því að sprengja í loft upp skóla, sjúkrahús og moskur undir yfirskriftinni „Don’t mess with Israel“. Helen endar færsluna á orðunum „Enn ein sönnun um þjóðarmorð. Ætlar Ísland í alvörunni að viðhalda stjórnmálasambandi við Ísrael?“
Spurning hennar er áríðandi enda telja margir fjölmiðlar að áform Netanyahu séu farin að trufla jafnvel Bandaríkjamenn sjálfa verulega en samkvæmt Oslóarsamkomulaginu séu flest ríki enn að horfa til tveggja ríkja lausnar í málefnum Ísraels og Palestínu en að Ísraelsher sé farinn að beita óhóflegum og jafnvel ólöglegum stríðsrekstri í árásum sínum á Gasa. Vísbendingar um þjóðarmorð verði sífellt áleitnari og ófriður í Austurlöndum öllum líklegri með hverjum deginum.
Ef marka má orðræðu utanríkisráðherra íslendinga Bjarna Benediktssonar á FB síðu sinni í gær þar sem hann fer stórum orðum um tjaldbúðir Palestínskra innflytjenda á Austurvelli síðustu vikur er svarið við spurningu Helenar nokkuð augljós. Jafnframt er nokkuð ljóst að Bjarni er ekki vel lesandi í alþjóðlegt umhverfi ef marka má erlendan fréttaflutning þessa dagana né er hann að tengja vel við gjörðir eða öllu heldur athafnaleysi Íslenskra stjórnvalda þar sem hann hefur ekki svarað ákalli mótmælenda um fund vegna málsins en ákveður nú að hella sér yfir þá í staðinn og virða forsendur þeirra fyrir mótmælum sínum algjörlega að vettugi.
Bjarni er með sterk tengsl við Bandaríkin þar sem hann stundaði framhaldsnám á sínum tíma og hefur hann lýst yfir vilja til að efla og styrkja frekari tengsl Íslands og Bandaríkjanna í framtíðinni í gegnum viðskiptalífið, ferðamennsku, menningar- og menntamál sem og málefni tengd norðurskautinu og þar með öryggis og varnarmál. Allir vita að Bandaríkin hafa verið aðal bakhjarlar Ísraelsríkis hingað til og því ljóst úr hvaða sæti Bjarni horfir til málsins en nokkur munur virðist vera á skoðunum repúblíkana og demókrata.
Bjarni sat hjá við atkvæðagreiðslu Alþingis um að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu í nóvember 2011 og benti þar í málflutningi sínum á að ESB hefði sett Hamas-samtökin á lista yfir hryðjuverkasamtök. Þess má geta að þar studdi hann álit minnihluta Sjálfstæðismanna sem þóttu aðgerðin ólíkleg til að hafa áhrif á frið á svæðinu á þeim tímapunkti. Í álitinu sagði m.a. „Minni hlutinn bendir á að möguleg áhrif almennrar viðurkenningar á sjálfstæði og fullveldi Palestínu á sjálfar friðarviðræðurnar milli Palestínumanna og Ísraelsmanna eru órannsökuð.”
Þá neitaði Bjarni sem nýverið hafði þá tekið við embætti utanríkisráðherra, að taka afstöðu í atkvæðagreiðslu fyrir hönd Íslands á neyðarfundi Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í árásum Ísraels gegn Palestínu. Þá ákvörðun tók Bjarni einn síns liðs án nokkurs samráðs við aðra stjórnarliða eða forsætisráðherra. Bjarni hafði þetta að segja um málið í Morgunblaðinu þann 30. nóvember „Þetta kallaði að mínu mati ekki á sérstakt pólitískt samráð enda taldi ég að við værum einfaldlega að framfylgja þeirri stefnu og koma á framfæri þeim meginskilaboðum sem við höfum verið sammála um.”
Katrín Jakobsdóttir segir í viðtali við fréttamann daginn áður að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með ályktun Jórdaníu um vopnahlé á Gasa en að ekki hafi verið haft samráð við hana.
Þrátt fyrir að hefðin kveði ekki á um samráð við atkvæðagreiðslur má velta því fyrir sér hvort sú staðreynd að Ísland hafi viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki árið 2011 gæfi ekki tilefni til samráðs og stuðnings við sjálfstæði þess. Það að Bjarni telji sig vera að framfylgja stefnu sem ríkisstjórnin sé sammála um er því í besta falli vafasamt í þessu samhengi.
Utanríkisráðherra virðist ekki telja sig þurfa að eiga í samráði né að beita sér alþjóðlega í takt við samþykktir Alþingis eða vilja þorra þjóðarinnar þegar kemur að málum Palestínu og setur þar möguleg fordæmi og fyrirmæli til útvarpsstjóra um að bregðast heldur ekki við ákalli almennings og yfir 500 tónlistarmanna á landinu sem vilja að Ísland sniðgangi Evróvision keppnina í ár. Líklega er þó útvarpsstjóri samherji Bjarna og skoðanabróðir ef marka má orðróm um komandi prófkjör innan Sjálfstæðisflokksins eins og fram kemur í frétt Samstöðvarinnar í gær.
Sjá:
Þegar þingið kemur saman eftir helgi eða mánudaginn 22. janúar verður þó áhugavert að sjá hvort ríkisstjórnin ætli að sameinast út kjörtímabilið þrátt fyrir hvalamál Svandísar og daður um vantraust í hennar garð og hvort VG ætli að sitja þegjandi hjá eftir ummæli Bjarna á FB sem sumir túlka sem þjóðernishyggju og jafnvel rasisma og hálfgerðar hótanir gagnvart Reykjavíkurborg fyrir leyfisveitingu tjaldbúðanna. Þá mun einnig koma í ljós hvort almenningur sjái tilefni til að bregðast við yfirlýsingum Bjarna á FB og hvort honum hafi tekist að særa fram „Íslenskari“ mótmæli eins og hefð er fyrir á hinum „heilaga“ Austurvelli og hvort þingmenn hafi meiri áhuga á hvalveiðum Kristjáns Loftssonar en þjóðarmorði í fjarlægu landi.