Ríkisstjórnin sögð í stórhættu vegna örlaga Svandísar

Morgunblaðið í dag staðhæfir að rík­is­stjórn­ar­sam­starfið sé í stór­hættu vegna boðaðrar van­traust­stil­lögu á Svandísi Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra.

Ef meirihluti þingmanna fellir Svandísi springur stjórnin að líkindum eftir því sem fram hefur komið hjá Ólafi Harðarsyni prófessor emeritus í stjórnmálafræði.

Morgunblaðið er nátengt Sjálfstæðisflokknum og gæti með frétt sinni verið að reka hræðsluáróður að brýna stjórnarþingmenn til að verja ráðherrann.

Þing kemur saman síðdegis í dag eftir jólafrí.

Inga Sæland í Flokk­i fólks­ins mun leggja fram van­traust­stil­löguna. Inga segir að Svandís eigi ekki að vera ráðherra eftir að umboðsmaður snupraði hana.

Tillöguna þarf að setja á dagskrá á þinginu eins fljótt og auðið verður. Má vænta að örlög Svandísar og ríkisstjórnarinnar skýrist á morgun eða miðvikudag í atkvæðagreiðslu sem enginn veit hvernig þróast.

Þótt vantrausttillögur séu oftast ekki vandamál í samstæðum stjórnarmeirihluta er stemmningin vægast sagt súr í herbúðum ríkisstjórnarinnar þessa dagana. Sundurlyndi einkennir samstarfið. Enn sjást þess engin merki að VG hafi náð að leysa vandann innan eigin raða undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Brýn mál bíða sem kalla á samstöðu og styrka stjórn svo sem vegna náttúruhamfara. Mogginn segir óger­legt að spá fyrir um niðurstöðu atkvæðagreiðslu um vantraust á þessu stigi.

Tveir þingmenn sem Samstöðin hefur rætt við, annar úr meirihlutanum, hinn í minnihlutanum, telja báðir líklegast „að stjórnin lifi og lafi áfram“ líkt og annar þingmaðurinn orðar það. „Það er ekki í kokkabókum sjálfstæðismanna að sprengja stjórnir þar sem þeir hafa mikil ítök,“ segir annar og bendir á að flokkurinn sé fyrst og fremst valdsækinn.

Framsóknarmenn halda að sér höndum og tala í gátum. Sjálfstæðismenn eru ekki einhuga og Vinstri grænir fengu aukaverkefni í fangið eftir viðbrögð Svandísar við áliti umboðsmanns Alþingis, Mikla reiði vakti þegar Svandís gaf í skyn að lögin sem henni ber að fara eftir séu gömul og úrelt og virðist sem hún hafi styggt stóran hóp þingmanna með viðbrögðum sem sumir kalla hroka en aðrir segja til marks um óöryggi.

Ein sviðsmynd er að Svandís missi hvalamálin frá sér og að sátt skapist um framhaldið. Einnig hefur verið rætt um uppstokkanir og hrókeringar. Að nokkru er málið sagt snúast um stolt Svandísar. Fyrst og fremst snýst þó krísan um framtíð stjórnarinnar þar sem auknar líkur eru á að ríkið verði dæmt til að greiða Kristjáni Loftssyni háar skaðabætur eftir bann sem sett var á veiðar á langreyðum með nokkurra klukkustunda fyrirvara án lagaheimildar í fyrra.

Hvorki virðist samstaða um hvernig þingmenn ætli sér að greiða atkvæði innan stjórnar né utan. Þannig hefur Viðreisn ekki enn markað sér stefnu. Sömu sögu má segja um Samfylkingu og pírata. Hefur verið haft á orði að raunverulegur vilji minnihlutans til að bylta ríkisstjórninni sé vandfundinn.

Þingmönnum ber ekki saman um hvort þingmaðurinn Jón Gunnarsson og róttækari armur flokksins verði barinn til hlýðni í atkvæðagreiðslunni eða hvort Bjarni Benediktsson hafi með upphlaupi sínu um tjaldbúðir á Austurvelli ætlað að senda VG aðvörun. Sumir viðmælendur Samstöðvarinnar segja upphlaupið til marks um að formaður Sjálfstæðisflokksins sé að missa tökin innan flokksins. Óli Björn Kárason og fleiri þingmenn eru nefndir til sögunnar, þar sem vænta megi í besta falli hjásetu gagnvart vantrausti. Ef niðurstaðan verðu sú gæti minnihlutinn raunverulega verið í þeirri stöðu að fella stjórnina en ósamstaða innan stjórnarandstöðunnar kann að vera eins mikil í málinu og sundurlyndi meirihlutans.

Samstöðin mun fjalla um málið í sjónvarpsdagskrá kvöldsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí