Segir Heimildina „málgagn íslenskra vinstriöfgamanna“

Í Morgunblaðinu í dag má finna svokallaða „fróðleiksmóla úr sögu og samtíð“, en þar er á ferðinni stuttur pistill eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands. Hannes er samur við sig og reynir að kenna öllum nema sinni hugmyndfræði og sínum flokki um efnahagshrunið árið 2008. Hann gerir þó, líkt og oft áður, ekki minnstu tilraun til að þykjast hlutlaus. Strax í fyrstu setningu varpar hann fram gildisdómi og segir Heimildina „málgagn íslenskra vinstriöfgamanna“.  

„Dr. Gylfi Zoëga prófessor birti nýlega grein um bankahrunið í málgagni íslenskra vinstriöfgamanna, Heimildinni. Þar segir hann marga hafa reynt að skrifa söguna upp á nýtt. Þeir haldi því fram, að hið sama hafi gerst erlendis og hér á landi, að Bretar og Hollendingar hafi komið illa fram við okkur og að innlend stjórnvöld hafi staðið sig vel eftir bankahrunið. Hann telur sannleikskorn í þessum þremur skoðunum, en aðalatriðið sé að koma í veg fyrir nýtt bankahrun. Líklega á ég að taka sneiðina til mín. En ég hef ekki reynt að skrifa söguna upp á nýtt, heldur hafa það, sem sannara reynist. Ég held, að bankahrunið hafi orðið fyrir samverkan margra ólíkra þátta, sem af ýmsum ástæðum toguðu allir í sömu átt. Þetta hafi verið „svartur svanur“, eins og Nassim Taleb kallar það: mikill, óvæntur og ólíklegur atburður, sem verður ekki fyrirsjáanlegur, fyrr en hann er orðinn. Eins og skáldið sagði: Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir,“ skrifar Hannes.

Hann telur svo upp nokkra þætti sem hann telur að hafi orsakað hrunið. Þeir sem hafa fylgst með skrifum hans ættu að kannast við rökin. „Þessir þættir voru: 1) Eigendur bankanna höfðu tekið lán fyrir hlutabréfum sínum og sáu verðmæti þeirra snarminnka í kreppunni frá hausti 2007. 2) Íslendingar höfðu komið sér út úr húsi í Danmörku, og Danske Bank vann gegn þeim. 3) Eigendur bankanna nutu lítils trausts erlendis. 4) Vogunarsjóðir veðjuðu óspart gegn bönkunum. 5) Seðlabankar G-10-ríkjanna sammæltust um það í maí 2008 að veita Íslandi ekki lausafjáraðstoð. 6) Innlánasöfnun bankanna erlendis mæltist illa fyrir. 7) Seðlabanki Evrópu krafðist betri trygginga en bankarnir gátu veitt. 8) Bandaríkin skeyttu engu um örlög Íslands. 9) Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta voru báðir Skotar og vildu sýna kjósendum sínum, að sjálfstæði væri varhugavert. 10) Lehman Brothers féll, skömmu áður en stórt lán Glitnis var á gjalddaga, svo að kreppan harðnaði og bankinn gat ekki útvegað sér fé. 11) Kaup ríkisins á Glitni mistókust, ekki síst þegar aðaleigendurnir fóru í herferð gegn þeim. Traustið minnkaði í stað þess að aukast. 12) Samfylkingin var höfuðlaus her, því að formaður hennar lá á sjúkrahúsi,“ segir Hannes.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí