„Leiðarahöfundur Moggans hefur mögulega fengið sér nokkra sjússa áður en hann dýfði pennanum í byttuna svo af draup og hóf skriftir,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar á Facebook. „Vangaveltur þær sem í leiðara helgarinnar birtast eru þess eðils að það er ekki ósennilegt að heilinn sem þær fæddust í hafi verið örlítið öl-vímaður. Sjálfur Churchill drakk frá morgni til kvölds, til skiptis brennda drykki og kampavín, en slíka drykki er einmitt oft fjallað um í Viðskiptamogganum, og ekki ósennilegt að aðalsmennirnir í Hádegismóum ímyndi sér að fyrst svo flottur strákur og fyrirmynd hafi lifað sem mennsk silfur-tarína sé ekkert annað en hyggilegt að styðjast við hans örlítið valta en óumdeilanlega árángursríka lífsmáta.“
„Í gær sagði ég við samstarfsfélaga mína að innan skamms myndi Mogginn slá því upp að breiðfylking sú sem leiðir nú kjarasamningsviðræður fyrir 93% aðildarfélaga Alþýðusambandsins, eða u.þ.b. 115.000 manneskjur á íslenskum vinnumarkaði sem er u.þ.b. 73% alls vinnandi fólks á landinu, væri í raun alls ekkert breið og ætti að skammast sín og hlusta sem fyrst á þá sem hefðu allt aðrar skoðanir á markmiðum þeim sem stefna skal að í viðræðunum,“ skrifar Sólveig Anna. „Það væri hið eina rétta og lýðræðislega í stöðunni. Því eins og öll vita vel hefur það auðvitað ávallt verið svo í gegnum allar heimsins samningaviðræður að um leið og fulltrúar fjölmennra hópa hafa komið sér saman um nálgun og aðferðir í því sem semja skal um hverju sinni og myndað með sér bandalag, er það frumskylda að falla strax frá þeim markmiðum sem sátt hefur náðst um og gera markmið annara hópa, helst þeirra fámennustu, að markmiðum fylkingarinnar. Aðeins þannig er hægt að viðhalda hinum lýðræðislegu sjónamiðum.“
„Og viti menn, það er einmitt umfjöllunarefni leiðarans,“ skrifar Sólveig Anna. „Viljið þið vita hvað gerist ef ekki er fetuð sú skynsama og mannkynssögulega margreynda leið sem að rakin er hér að ofan og þeir víðlesnu og lífsreyndu manna sem taka náðarsamlegast að sér að nota heilana sína í að útbúa fyrir okkar leiðara Morgunblaðsins vita að er sú eina rétta? Það er ekki flókið: Þú ferð þá samstundis að minna á Lenín og bolsévikana! Sem voru mjög vondir við mensjevikana. Ragnar Þór er aðeins ótýndur bolséviki, og Þórainn í Sameyki og Halla Gunnarsdóttir eru þjáðir mensévikar. Svo illa er komið fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu. Ástandið er vægast sagt dapurlegt. Best að bæta aðeins í glasið og losa um smá dópamín til að sefa hinar melankólísku tilfinningar.“
Hér má lesa leiðar Moggans:
Samningaórói
Snurða er hlaupin á þráðinn í kjaraviðræðum. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kvaðst vera orðlaus yfir Samtökum atvinnulífsins og útskýrði svo hvers vegna. Sigríður Margrét Oddsdóttir, formaður Samtaka atvinnulífsins, talaði hins vegar eins og hvergi væri snurðu að finna, menn væru sammála um forsendur og hvert svigrúmið væri. Samtök atvinnulífsins skildu fullkomlega málstað skjólstæðinga stéttarfélaganna. Eftir því að dæma væri samkomulag aðeins spurning um fínstillingu.
Fulltrúar launafólks hafa kallað sig breiðfylkingu. Þetta orð er ekki valið af tilviljun og hentar vel að stilla því upp við orð eins og þjóðarsátt. Vitaskuld dugar ekkert minna en breiðfylkingu til þess að ná þjóðarsátt.
Reyndar má velta fyrir sér hversu breið fylkingin er í raun.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og fyrsti varaformaður BSRB, kvaðst í viðtali í Morgunblaðinu í upphafi árs telja dálítið sérstakt að talað væri um viðræður breiðfylkingar og þjóðarsáttarsamninga, sem væru mjög stór og yfirgripsmikil hugtök og ættu ekkert við í þessu samhengi. „Þetta eru viðræður á milli Samtaka atvinnulífsins og tiltekinna félaga innan ASÍ. ASÍ er ekki að öllu leyti heilt á bak við þetta heldur eru þetta félög sem hafa þó yfir 90% félagsmanna á bak við sig, sem eiga í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þetta hefur ekkert með þjóðarsátt að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut,“ sagði hann.
VR er burðarás í breiðfylkingunni. Þar ríkir ekki einu sinni eining um markmið og leiðir. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í snúinni stöðu því að ríflegur meirihluti félaga er millitekjufólk á markaðslaunum. Eins og sagði í fréttinni hafa bæði meirihluti þings Landssambands íslenskra verslunarmanna og trúnaðarráð VR lýst vilja til að semja fremur um prósentuhækkun með ákveðnu þaki og gólfi en flata krónutöluhækkun.
Nafngiftin breiðfylking fer því að minna dálítið á það þegar Lenín og hans meðreiðarmenn gáfu sér nafnið bolsévikar sem þýðir meirihluti, þótt yfirleitt væru þeir í minnihluta. Andstæðingar þeirra voru því nefndir mensjevikar, sem merkir minnihluti, þótt oftast væru þeir í meirihluta. Það samtal sem nú á sér stað virðist í það minnsta ekki vera neitt í líkingu við það sem var á bak við þjóðarsáttina fyrir þremur áratugum.
Hvað sem því líður er full þörf fyrir einhvers konar þjóðarsátt.
Verðbólgan og háir vextir eru í raun helsta verkefni þessara kjarasamninga. Verðbólgan hefur verið á niðurleið, en verði óraunhæfir samningar til þess að hún losni úr læðingi gildir einu hvað samið verður um miklar launahækkanir eða hvort þær verða flöt krónutala eða mældar í prósentum. Þær munu fuðra upp. Eftir mikla hækkun kaupmáttar í undanförnum kjarasamningum, þar sem lægstu laun hafa hækkað meira en þau hærri, hefur nú hallað undan fæti. Nógu erfitt er að ýta steininum upp brekkuna, verra er að verða undir honum ef hann byrjar að rúlla niður aftur.
Vilhjálmur Birgisson sagði í viðtalinu, sem vitnað var til hér fyrir ofan, að ekki væri hægt að ætlast til þess að íslenskt launafólk axlaði ábyrgð á öllu í íslensku samfélagi. Það er vitaskuld ekki hægt að biðja þá, sem lægst hafa launin, að halda að sér höndum á meðan allt annað lætur undan. Hækkanir á margvíslegum opinberum gjöldum og þjónustu um áramót sýndu furðulegt skilningsleysi á þessu atriði.
En skynsamleg lending verður að nást og það er ekki síst mikilvægt nú þegar við blasir að eldvirkni mun áfram setja mark sitt á Reykjanesskaga og óvissa ríkir um framtíð Grindavíkur.