Sólveig Anna hæðist að leiðara Davíðs og spyr hvort hann hafi verið drukkinn við skrifin

„Leiðarahöfundur Moggans hefur mögulega fengið sér nokkra sjússa áður en hann dýfði pennanum í byttuna svo af draup og hóf skriftir,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar á Facebook. „Vangaveltur þær sem í leiðara helgarinnar birtast eru þess eðils að það er ekki ósennilegt að heilinn sem þær fæddust í hafi verið örlítið öl-vímaður. Sjálfur Churchill drakk frá morgni til kvölds, til skiptis brennda drykki og kampavín, en slíka drykki er einmitt oft fjallað um í Viðskiptamogganum, og ekki ósennilegt að aðalsmennirnir í Hádegismóum ímyndi sér að fyrst svo flottur strákur og fyrirmynd hafi lifað sem mennsk silfur-tarína sé ekkert annað en hyggilegt að styðjast við hans örlítið valta en óumdeilanlega árángursríka lífsmáta.“

„Í gær sagði ég við samstarfsfélaga mína að innan skamms myndi Mogginn slá því upp að breiðfylking sú sem leiðir nú kjarasamningsviðræður fyrir 93% aðildarfélaga Alþýðusambandsins, eða u.þ.b. 115.000 manneskjur á íslenskum vinnumarkaði sem er u.þ.b. 73% alls vinnandi fólks á landinu, væri í raun alls ekkert breið og ætti að skammast sín og hlusta sem fyrst á þá sem hefðu allt aðrar skoðanir á markmiðum þeim sem stefna skal að í viðræðunum,“ skrifar Sólveig Anna. „Það væri hið eina rétta og lýðræðislega í stöðunni. Því eins og öll vita vel hefur það auðvitað ávallt verið svo í gegnum allar heimsins samningaviðræður að um leið og fulltrúar fjölmennra hópa hafa komið sér saman um nálgun og aðferðir í því sem semja skal um hverju sinni og myndað með sér bandalag, er það frumskylda að falla strax frá þeim markmiðum sem sátt hefur náðst um og gera markmið annara hópa, helst þeirra fámennustu, að markmiðum fylkingarinnar. Aðeins þannig er hægt að viðhalda hinum lýðræðislegu sjónamiðum.“

„Og viti menn, það er einmitt umfjöllunarefni leiðarans,“ skrifar Sólveig Anna. „Viljið þið vita hvað gerist ef ekki er fetuð sú skynsama og mannkynssögulega margreynda leið sem að rakin er hér að ofan og þeir víðlesnu og lífsreyndu manna sem taka náðarsamlegast að sér að nota heilana sína í að útbúa fyrir okkar leiðara Morgunblaðsins vita að er sú eina rétta? Það er ekki flókið: Þú ferð þá samstundis að minna á Lenín og bolsévikana! Sem voru mjög vondir við mensjevikana. Ragnar Þór er aðeins ótýndur bolséviki, og Þórainn í Sameyki og Halla Gunnarsdóttir eru þjáðir mensévikar. Svo illa er komið fyrir íslenskri verkalýðshreyfingu. Ástandið er vægast sagt dapurlegt. Best að bæta aðeins í glasið og losa um smá dópamín til að sefa hinar melankólísku tilfinningar.“

Hér má lesa leiðar Moggans:

Samningaórói

Snurða er hlaup­in á þráðinn í kjaraviðræðum. Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins, kvaðst vera orðlaus yfir Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins og út­skýrði svo hvers vegna. Sig­ríður Mar­grét Odds­dótt­ir, formaður Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, talaði hins veg­ar eins og hvergi væri snurðu að finna, menn væru sam­mála um for­send­ur og hvert svig­rúmið væri. Sam­tök at­vinnu­lífs­ins skildu full­kom­lega málstað skjól­stæðinga stétt­ar­fé­lag­anna. Eft­ir því að dæma væri sam­komu­lag aðeins spurn­ing um fínstill­ingu.

Full­trú­ar launa­fólks hafa kallað sig breiðfylk­ingu. Þetta orð er ekki valið af til­vilj­un og hent­ar vel að stilla því upp við orð eins og þjóðarsátt. Vita­skuld dug­ar ekk­ert minna en breiðfylk­ingu til þess að ná þjóðarsátt.

Reynd­ar má velta fyr­ir sér hversu breið fylk­ing­in er í raun.

Þór­ar­inn Eyfjörð, formaður Sam­eyk­is og fyrsti vara­formaður BSRB, kvaðst í viðtali í Morg­un­blaðinu í upp­hafi árs telja dá­lítið sér­stakt að talað væri um viðræður breiðfylk­ing­ar og þjóðarsátt­ar­samn­inga, sem væru mjög stór og yf­ir­grips­mik­il hug­tök og ættu ekk­ert við í þessu sam­hengi. „Þetta eru viðræður á milli Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og til­tek­inna fé­laga inn­an ASÍ. ASÍ er ekki að öllu leyti heilt á bak við þetta held­ur eru þetta fé­lög sem hafa þó yfir 90% fé­lags­manna á bak við sig, sem eiga í viðræðum við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins. Þetta hef­ur ekk­ert með þjóðarsátt að gera, ekki nokk­urn skapaðan hlut,“ sagði hann.

VR er burðarás í breiðfylk­ing­unni. Þar rík­ir ekki einu sinni ein­ing um mark­mið og leiðir. Eins og fram kom í Morg­un­blaðinu í gær er Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, í snú­inni stöðu því að ríf­leg­ur meiri­hluti fé­laga er milli­tekju­fólk á markaðslaun­um. Eins og sagði í frétt­inni hafa bæði meiri­hluti þings Lands­sam­bands ís­lenskra versl­un­ar­manna og trúnaðarráð VR lýst vilja til að semja frem­ur um pró­sentu­hækk­un með ákveðnu þaki og gólfi en flata krónu­tölu­hækk­un.

Nafn­gift­in breiðfylk­ing fer því að minna dá­lítið á það þegar Lenín og hans meðreiðar­menn gáfu sér nafnið bol­sévik­ar sem þýðir meiri­hluti, þótt yf­ir­leitt væru þeir í minni­hluta. And­stæðing­ar þeirra voru því nefnd­ir men­sj­evik­ar, sem merk­ir minni­hluti, þótt oft­ast væru þeir í meiri­hluta. Það sam­tal sem nú á sér stað virðist í það minnsta ekki vera neitt í lík­ingu við það sem var á bak við þjóðarsátt­ina fyr­ir þrem­ur ára­tug­um.

Hvað sem því líður er full þörf fyr­ir ein­hvers kon­ar þjóðarsátt.

Verðbólg­an og háir vext­ir eru í raun helsta verk­efni þess­ara kjara­samn­inga. Verðbólg­an hef­ur verið á niður­leið, en verði óraun­hæf­ir samn­ing­ar til þess að hún losni úr læðingi gild­ir einu hvað samið verður um mikl­ar launa­hækk­an­ir eða hvort þær verða flöt krónu­tala eða mæld­ar í pró­sent­um. Þær munu fuðra upp. Eft­ir mikla hækk­un kaup­mátt­ar í und­an­förn­um kjara­samn­ing­um, þar sem lægstu laun hafa hækkað meira en þau hærri, hef­ur nú hallað und­an fæti. Nógu erfitt er að ýta stein­in­um upp brekk­una, verra er að verða und­ir hon­um ef hann byrj­ar að rúlla niður aft­ur.

Vil­hjálm­ur Birg­is­son sagði í viðtal­inu, sem vitnað var til hér fyr­ir ofan, að ekki væri hægt að ætl­ast til þess að ís­lenskt launa­fólk axlaði ábyrgð á öllu í ís­lensku sam­fé­lagi. Það er vita­skuld ekki hægt að biðja þá, sem lægst hafa laun­in, að halda að sér hönd­um á meðan allt annað læt­ur und­an. Hækk­an­ir á marg­vís­leg­um op­in­ber­um gjöld­um og þjón­ustu um ára­mót sýndu furðulegt skiln­ings­leysi á þessu atriði.

En skyn­sam­leg lend­ing verður að nást og það er ekki síst mik­il­vægt nú þegar við blas­ir að eld­virkni mun áfram setja mark sitt á Reykja­nesskaga og óvissa rík­ir um framtíð Grinda­vík­ur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí