„Það er óvíst,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnamálafræðiprófessor við Háskólann á Bifröst, spurður hvort orðræða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, um flóttamenn undanfarið sé líkleg til að auka fylgi við Sjálfstæðisflokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst neðar í könnunum, hvorki hjá Gallup né Maskínu. Á sama tíma er Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar samkvæmt mælingum á miklu flugi meðal þjóðarinnar.
„Það sem við sjáum í síðustu könnunum er mikið fylgisflot milli Sjálfstæðisflokks og Miðflokks,“ segir Eiríkur. „Stjórmálamenn í þessum tveimur flokkum tala nú hvað ákafast og gagnrýnast gagnvart flóttafólki,“ bætir Eiríkur við. „Það er augljóst að menn eru að stilla sér fram og samhljómur þarna á milli,“ segir Eiríkur í fréttaviðtali við Samstöðina.
Ummæli Bjarna um „hörmung“ tjaldbúða á Austurvelli og viðbragð hans á mánudag í Silfri Ríkisútvarpsins um flóttamenn hafa skapað mikinn umdeilanleika. Margir þekktir Íslendingar hafa sakað Bjarna um rasisma. Nemendur í grunnskólum borgarinnar, svo sem Hagaskóla, eru meðal þeirra sem skipuleggja nú skólaverkföll til að þrýsta á að fleiri Palestínumönnum verði veitt skjól hér á landi. Áður var bakland Sjálfstæðisflokksins hvað sterkast í Vesturbænum. Skipuleggjendur mótmælanna á Austurvelli segja að Ísraelar séu að fremja þjóðarmorð á Gasa. Íslandi líkt og öðrum þjóðum beri skylda til að leggja Palestínumönnum aukið lið.
„Það er ekkert ólíklegt að við séum að sjá sama gerast hér og í Evrópu,“ segir Eiríkur um vaxandi skautun. „En þó er sá grundvallarmunur á þar og hér að hinn íslenski Sjálfstæðisflokkur er ekki hægri popúlískur flokkur þótt þannig raddir séu innan í honum.“
Fyrr á tímum sótti Sjálfstæðisflokkurinn fylgi sitt að nokkru til þjóðernisstefnu. Spurður hvort gamall tími kunni að vera að banka upp á, segir Eiríkur að alltaf hafi verið heimili fyrir íslenska þjóðernissinna innan Sjálfstæðisflokksins.
„En birtingarmynd þjóðernishyggjunnar breytist frá einum tíma til annars. Hún birtist áður í hugmyndum um þjóðrækni og upphafningu hins íslenska. Núna brýst þjóðernishyggjan út í andstöðu við innstreymi fólks úr öðrum menningarheimum.“