Í það minnsta 32 voru handtekin í mótmælum víðs vegar í Rússlandi í gær. Þar af voru flest handtekin fyrir að minnast stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny, sem lést í rússnesku fangelsi fyrir níu dögum. Móðir Navalny fékk lík hans loks afhent í gær, eftir hótanir og ógnanir rússneskra yfirvalda sem óttast að mótmæli og gríðarlegan mannfjölda við útför baráttumannsins.
Mótmælendur voru handteknir í níu borgum, þar af bæði í Moskvu og Pétursborg. Þar á meðal voru 27 manns handtekin fyrir þá synd að leggja blóm til að minnast Navalny og nokkur fjöldi var einnig handtekinn í borginni Novosibirsk, þegar þau gerðu tilraun til að ljósmynda mynd af Navalny við minnismerki um fórnarlömb pólitískra ofsókna.
Þá var fólk handtekið fyrir að mótmæla stríðinu í Úkraínu, sem í gær hafði staðið í tvö ár slétt. Sömuleiðis voru mótmælendur handteknir á mótmælum eiginkvenna hermanna, sem kröfðust þess að bundinn yrði endir á herkvaðningar. Meðal hinna handteknu voru að minnsta kosti fjórir blaðamenn.