Hátt í 400 manns hafa verið handtekin í Rússlandi fyrir þær sakir að minnast stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny. Handtökurnar áttu sér stað í að minnsta kosti 39 rússneskum borgum, flestar í Sankti Pétursborg, þar sem yfir 200 manns voru handteknir. Í gærkvöldi var þegar búið að kveða upp dóma yfir ríflega 150 manns. Var fólkið dæmt til fangelsisvistar á bilinu einn til fjórtán daga.
Rússar hafa streymt út á götur borga og bæja í miklum mæli frá því fréttir bárust af því síðasta föstudag að Navalny hefði látist í fangelsi norðan heimskautsbaugs. Þar hafa þeir lagt blóm til minningar um Navalny og gera enn.
Því sem næst samhljóða álit fólks, þar á meðal þjóðarleiðtoga, er að Vladimir Pútin Rússlandsforseti beri ábyrgð á dauða Navalny. Navalny var helsti og opinskáasti gagnrýnandi Pútíns um árabil.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði síðastliðinn laugardag að staðreynd málsins væri að Pútín bæri ábyrgð á dauða Navalny. „Hvort sem hann fyrirskipaði það eða ekki, þá er hann ábyrgur fyrir aðstæðunum. Þetta sýnir bara hver hann er. Það er ekki hægt að líða þetta,“ sagði Bandaríkjaforseti.
Þá hafa mótmæli og minningarathafnir verið haldin víða um heim. Þannig mótmæltu aðgerðarsinnarnir í Pussy Riot utan við rússneska sendiráðið í Berlín og héldu á borðum þar sem skrifað var „Morðingjar“ á ensku og rússnesku. Meðal þeirra sem þar voru viðstödd var Lusya Shtein, sem á síðasta ári fékk íslenskan ríkisborgararétt.
Í Finnlandi hafa Rússar þar búsettir hafið undirskriftasöfnun í því skyni að fá almenningsgarð sem liggur að rússneska sendiráðinu í Helsinki nefndan Navalny-garð til, honum til heiðurs.
„Ég elska þig“
Ekkja Navalny, Yulia Navalnaya kemur í dag til fundar við utanríkisráðherra Evrópusambandsins í Brussel. Á ráðherrafundinum á að ræða frekari hernaðarstuðning við Úkraínu og enn frekari refsiaðgerðir gegn Rússum vegna innrásarstríðs þeirra. Næstkomandi laugardag verða tvö ár liðin frá því að Rússar réðust af fullum þunga inn í Úkraínu.
Navalnaya sagði á fundi með vestrænum leiðtogum og diplómötum í Munchen síðasta föstudag að Pútín og bandamenn hans myndu þurfa að sæta ábyrgð vegna þess sem þeir hafa „gert landinu mínu, fjölskyldu minni, eiginmanni mínum.“
Navalnaya birti í gær mynd af þeim hjónum á Instagram þar sem sagði aðeins: „Ég elska þig“.