Grindvíkingar eru allt annað en sáttir með að Bláa lónið fái að opna aftur meðan þau mega ekki fara heim til sín. Í það minnsta ef marka má viðbrögð þeirra sem tjá sig um innan Facebook-hóps íbúa. Þau rök hafa komið fram að minni skemmdir hafi orðið á Bláa lóninu en bænum. Grindvíkingar segir þau rök ekki halda vatni, sum hús séu nær alveg óskemmd og því ekkert nema tvískinnungur að leyfa þeim ekki að snúa atur til síns heima.
„Það á að opna Bláa lónið á morgun, hvað leið á ferðafólkið að aka? Ég spyr: afhverju get ég ekki verið heima hjá mér í Þórkötlustaðarhverfi sem er algerlega án sprungna en gæti keypt mér hotelherbergi í lóninu og legið þar, það eru komnar upp aðvörunar flautur í hverfinu og ég get flúið á 5 min upp á suðurstrandaveg, tja hverskonar vitleysa er þetta?,“ spyr kona nokkur og virðast margir sammála henni.
„Algjörlega galið“ og „svo mikið rugl“segja Grindvíkingar. Nokkrir eru í engum vafa hvað veldur því að Bláa lónið fær þessa, að svo virðist, sérmeðferð. „Á Íslandi ráða sérhagsmunir, ekki hagsmunir almennings,“ skrifar einn þeirra.