Heildarsýn ríkisstjórnarinnar minni á samkomulagið um að hingað kæmu engir svartir hermenn

„Áhersla verður á að tryggja að verndarkerfið þjóni fyrst og fremst þeim sem búa við mesta neyð. Það verður m.a. gert með því að forgangsraða móttöku kvótaflóttafólks og einstaklinga og fjölskyldna í viðkvæmri stöðu, þ.m.t. hinsegin fólks, einstæðra kvenna og barna þeirra.“

Með þessum orðum lýkur fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar um „heildarsýn“ hennar í útlendingamálum. Í raun má stytta síðustu setninguna á þá leið að gagnkynhneigðir karlmenn munu sjálfkrafa fara aftast í röðina. Haukur Már Helgason, rithöfundur og fjölmiðlamaður, bendir á þetta á Facebook og segir þetta helst minna sig á nú alræmt samkomulag við Bandaríkjaher um að hingað kæmu engir svartir hermenn. Hann skrifar:

„Þetta getur hljómað vel ef maður hunsar sögu kynþáttafordóma, en þýðir í reynd að neðstir á listanum, síðastir inn og helst bara alls ekki, verða þeldökkir, gagnkynhneigðir karlmenn. Í knappri samantekt er þá dramað í þessum málaflokki, frá sjónarhóli stjórnvalda: „Hingað hafa komið svo margar hvítar konur frá Úkraínu að nú verðum við að hætta að hleypa dökkum karlmönnum til landsins.“ Það er ekki ný stefna eða frumleg. Eins og glögglega sést víða í kommentakerfum og samfélagsmiðlum snýst ótti þeirra sem fælast útlendinga, enn í dag, ekki síst um einmitt þann hóp. Það er sami ótti og áður birtist í samkomulaginu við Bandaríkjaher um að hingað kæmu engir svartir hermenn. Gamaldags, hefðbundinn, þvottekta rasismi. Stjórnvöld hafa bara ákveðið að láta undan því hnefafylli af rasískum vælukjóum á landinu sem hafa hæst um málaflokkinn.“

Annar fjölmiðlamaður, Egill Helgason, er ekki sannfærður og vísar til þess að ungir karlar séu oft óvenjuhátt hlutfall flóttamanna. „Er það svo? Málið er náttúrlega að ungir karlmenn eiga auðveldast með brjótast af eigin rammleik til Vesturlanda til að sækja um hæli. Þeir reyna svo oft að fá fjölskyldur sínar sendar í kjölfarið. Hefur valdið því að hlutfall tiltölulega ungra karla er mjög hátt meðal flóttamanna. Mæður með börn, hvað þá ekkjur og einstæðar konur, eiga ekki auðvelt með þetta,“ skrifar Egill.

Haukur Már svarar á móti: „Einmitt. Eins og stefnunni er lýst virðist ætlunin að þrengja mjög að möguleikum þeirra sem koma hingað að eigin frumkvæði og handvelja heldur inn fólk úr þeim hópum sem þarna eru taldir.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí