Rússneski stjórnarandstæðingurinn og andófsmaðurinn Alexei Navalny er látinn. Eftir því sem rússneskt fangelsismálayfirvöld greina frá lést Navalni í fangelsi í morgun. Samkvæmt tilkynningu yfirvalda veiktist Navalny á göngu í fangelsinu og missti meðvitund. Tilraunir til endurlífgunar báru ekki árangur. Navalny var 47 ára gamall. Yfirvöld í Kreml segja að dánarorsök hans sé ekki ljós.
Navalny var einhver helsti og einarðasti pólitíski andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta. Hann var meðal þeirra sem skipulögðu og komu af stað mótmælaherferð í Rússlandi á árunum 2011 til 2012 með baráttu sinni gegn kosningasvindli og spillingu stjórnvalda. Árið 2013 bauð Navalny sig fram til borgarstjóra í Moskvu og hlaut 27 prósent atkvæðanna í kosningunum, sem dugði honum þó ekki til að hreppa stólinn.
Árið 2020 lék grunur á um að rússneska leyniþjónustan FSB hefði eitrað fyrir Navalny með taugaeitrinu novichok. Navalny féll þá í dá og var fluttur til Þýskalands til meðferðar. Hann náði sér og sneri aftur til Rússlands í janúar árið 2021, til þess eins að verða handtekinn fyrir að hfa rofið skilorð. Var hann dæmdur til fangelsisvistar. Fleiri ákærur á hendur Navalny voru síðan settar fram og hann dæmdur fyrir þær, alls í yfir 30 ára fangelsi.