Bandaríkin beittu enn einn ganginn neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær í tengslum við árásarstrið Ísraels gegn Palestínumönnum á Gaza. Í þetta sinn hindruðu fulltrúar Bandaríkajnna samþykkt ályktunar ráðsins þar sem fjöldamorð ísraelska hersins á almennum borgurum í gær var fordæmd. Er þetta í fjórða sinn sem Bandaríkin beita neitunarvaldi sínu gagnvart ályktunum í Öryggisráðinu sem hafa með stríðsreksturinn að gera.
Fulltrúi Alsírs í Öryggisráðinu lagði fram ályktun þar sem fjöldamorðið var fordæmt. Ísraelsher myrti yfir eitthundrað manns í árásinni, staðfest er að hið minnsta 112 eru látnir og gæti mannfallið látist þar eð hátt í 800 manns særðust sumir alvarlega. Árásin átti sér stað þar sem soltnir Palestínumenna nálguðust bílalest með neyðaraðstoð, einni af fáum slíkum sendingum sem komið hefur verið inn á Gaza síðustu vikur. Hafði fólkið margt beðið svo klukkutímum skipti. Þegar fyrstu bílarnir komu nálgaðist fólkið þá, en ísraelskir hermenn hófu þá skothríð með þessum afleiðingum.
Ísraelsher neitaði í fyrstu fyrir vitneskju um nokkra árás, en hefur síðan bakkað með þá afstöðu og halda því nú fram að hermönnum þeirra hafi verið ógnað og því hafi þeir hafið skothríðina.
Hin fjórtán ríkin sem eiga sæti í Öryggisráðinu greiddu öll atkvæði með ályktuninni.
Robert Wood, sendherra Bandaríkjanna í Öryggisráðinu, sagði blaðamönnum eftir fundinn að ástæða þess að Bandaríkin hefðu beitt neitunarvaldi sínu væri að ekki lægju allar staðreyndir fyrir um atvik málsins. Verið væri að vinna að því að orða ályktunina þannig að fulltrúar allra þjóðanna í ráðinu gætu sætt sig við það orðalag. Á Wood þar við að verið sé að finna orðalag sem Bandaríkin geta sætt sig við, enda samþykktu sem fyrr segir allar hinar þjóðirnar ályktunina.