Ísraelsk fangelsismálayfirvöld eru sökuð um að svelta yfir 9.000 palestínska fanga sem eru í haldi í ísraelskum fangelsum. Þessu halda palestínsk samtök um réttindi fanga fram og taka þar undir með PLO samtökunum palestínsku sem sökuðu Ísraela um slíkt hið sama í síðasta mánuði. Í yfirlýsingu samtakanna segir einnig að fangelsisyfirvöld komi í veg fyrir að Palestínumenn í haldi geti iðkað trúarbrögð sín.
Meðal þeirra sem sögð eru svelta í ísraelskum fangelsum eru konur, börn og sjúklingar. Í yfirlýsingu PLO frá því í síðasta mánuði sagði að palestínskir fangar hefðu misst á bilinu 15 til 25 kílógrömm af líkamsþyngd sinni vegna sveltisins. Matarskammtar væru alltof litlir og langt frá daglegum lágmarksþörfum og gæði matarins væru slök. Sveltið væri skipulagt og væri beitt sem refsingu.
Þá er því haldið fram einnig að fangelsisyfirvöld svipti palestínska fanga lyfjum, að þeir fái ekki nægilega hlý föt eða teppi í vetrarkuldunum.
Ísraelar hafa handtekið yfir yfir 7.000 Palestínumenn á herteknu svæðunum á Vesturbakkanum frá 7. október, þegar Hamasliðar gerðu árásir sínar og Ísraelar svöruðu með allsherjar árásarstríði á Gaza-strönd. Yfir 9.000 Palestínumenn eru í haldi í ísraelskum fangelsum, þar af eru tæplega 3.500 manns í haldi án þess að hafa verið ákærðir eða réttað yfir þeim, eftir því palestínsk samtök segja.