Bandaríkin og bandalagsþjóðir telja allar líkur á að stór flugskeyta- eða drónaárás Írana eða bandamanna þeirra á Ísrael sé yfirvofandi. Ef svo verður myndu átökin fyrir botni Miðjarðarhafsins enn færast í aukana. Ef íranski herinn gerði beina árás á ísraelskt landsvæði yrði það í fyrsta skipti sem það gerðist og myndi mjög líklega færa á átökin á annað stig.
Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu og hefur eftir embættismönnum og heimildum innan bandaríska stjórnkerfisins. Heimildarmenn telja að ekki sé spurning um hvort, heldur hvenær, af árás eða árásum sem þessum verður. Æðstiklerkur Írans, Ayatollah Ali Khamenei, endurtók síðast í gær hótanir þess efnis að hefnt yrði fyrir árás
Íranar hafa hótað því að ráðast á Ísrael sem hefndaraðgerð vegna eldflaugaárásar þeirra síðarnefndu á ræðismannsskrifstofur Írans í Damaskus í Sýrlandi í síðustu viku. Í árásinni féllu sjö, þar af háttsettur herforingi í her Írans. Æðstiklerkur Írans, Ayatollah Ali Khamenei, endurtók síðast í gær hótanir þess efnis að hefnt yrði fyrir árásina, sem hann sagði jafngilda árás á íranskt land. Ísraelar hafa aftur á móti lýst því að ef Íranir láti verða af beinum árásum á Ísraelskt land, muni þeir svara í sömu mynt.
Talið er að árásir Írana eða bandamanna þeirra muni beinast að opinberum byggingum eða hernaðarmannvirkjum, en ekki borgarlegum. Þá er mögulegt að árásin eða árásirnar verði gerðar á sendiráð eða sendiskrifstofur Ísraels í öðrum ríkjum.
Bandaríkjamenn hafa boðið Ísraelum aðstoð, sem þeir hafa þegið, við að skipuleggja viðbrögð við hugsanlegri árás og upplýsingaöflun. Ísraelar hafa lýst því fyrir bandamönnum sínum að þeir bíði þess að árásin eigi sér stað, áður en þeir ráðist af landi á borgina Rafah á suðurhluta Gaza-strandar.
Samkvæmt mati leyniþjónusta Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda er ekki endilega búist við að árásin verði gerð á Ísrael frá norðri, það er frá Líbanon þar sem bandamenn Írana, Hezbollah-samtökin hafa bækistöðvar. Mat ísraelsku leyniþjónustunnar mun var á sömu leið. Samtökin hafa svo til daglega, frá því árásarstríð Ísraela á Gaza hófst, skipst á skotum við ísraelska herinn yfir landamærin.
Sendinefndir erlendra ríkja hafa þegar hafið undirbúning hugsanlegra árása, með því að gera viðbragðsáætlanir um brottflutning, auk þess að kalla eftir neyðabirgðum á borð við rafstöðvar og gervihnattasíma.
Bandaríkjastjórn hefur að undanförnu þrýst æ harðar á Ísraela um að vopnahlé á Gaza-strönd. Hins vegar hefur hún einnig gefið þau skilaboð að Bandaríkin séu tilbúin að styðja við Ísrael ef af árás Írana eða bandamanna þeirra verður.