Ísraelar hafa dregið töluverðan hluta hersveita sinna frá sunnanverðri Gaza-ströndinni, meðal annars að hluta frá borginni Khan Younis, samkvæmt yfirlýsingum ísraelska hersins. Hins vegar ber frásögnum ekki saman um hversu mikill hluti herliðsins hefur verið dreginn til baka. Í yfirlýsingu hersins segir að eitt stórfylki hafi verið skilið eftir á svæðinu en í stórfylki eru alla jafn á bilinu þrjú til fimm þúsund hermenn.
Eftir því sem haft hefur verið eftir talsmönnum Ísraelshers í erlendum fjölmiðlum er ekkert útlir fyrir að með því að draga herlið til baka hyggist Ísraelar binda enda á árásarstríð sitt. Öllu heldur er herinn að safna kröftum og skipuleggja næstu og frekari hernaðaraðgerðir sínar, eins og segir í yfirlýsingu hersins. Stórfylkinu sem eftir er, er ætlað að tryggja að Ísraelar geti eftir sem áður haldið úti hernaði sínum og halda stöðu hersins.
Óljóst er hvaða áhrif, ef einhver, það hefur að Ísraelar hafi dregið lið sitt til baka á löngu boðaða og fyrirhugaða árás á borgina Rafah. Raunar lýsti varnarmálaráðherra Ísraels, Yoav Gallant, því að enn stæði til að hefja aðgerðir í Rafah, án þess að gefa upp neitt frekar um þær. Gallant sagði að hersveitirnar væru að undirbúa sig undir næstu aðgerðir, og að dæmi um slíkar aðgerðir hefði verið árás hersins á al-Shifa sjúkrahúsið. Ísraelski herinn sat um sjúkrahúsið í tvær vikur, gerðu ítrekaðar árásir á það, skyldu það að lokum eftir í rústum og hundruð létust í þeim árásum, þar á meðal hjúkrunarlið. Slík framganga er stríðsglæpur.
Yfirlýsingar Ísraela haldast þó í hendur við upphaf enn einnar umferðar friðarviðræðna í Kaíró í Egyptalandi. Hvort hægt sé að lesa eitthvað í það er óljóst, en þrýstingur á stjórn Benjamins Netanyahu hefur aukist verulega að undanförnu, bæði heima fyrir í Ísrael og á alþjóðavettvangi. Þá má líka horfa til þess að Íranir hafa hótað hefndaraðgerðum eftir loftárás Ísraela á Damaskus í síðustu viku, þar sem meðal annars tveir íranskir hershöfðingjar féllu.
Hver á að veita hjálp á norðurhluta Gaza?
Á sama tíma spyrja mannúðarsamtök og hjálparstofnanir þeirrar spurningar hverjir það séu sem eigi að koma neyðaraðstoð til norðurhluta Gaza-strandar. Eftir árás Ísraelshers á hjálparstarfsmenn World Central Kitchen, þar sem sjö hjálparstarfsmenn af ýmsum þjóðernum voru myrtir, hafa bæði World Central Kitchen og að minnsta kosti tvö önnur hjálparsamtök hætt aðgerðum á svæðinu. UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, er ennþá ekki leyft af Ísraelum að starfa á svæðinu en UNRWA eru langstærstu hjálparsamtökin sem starfa þar. Á meðan er hungursneið yfirvofandi á norðurhluta Gaza.