Benny Gantz, ráðherra í stríðsmálaráðuneyti Ísraels, hefur kallað eftir því að kosningar fari fram í landinu í haust. Þrýstingur og gagnrýni á Benjamin Netanyahu og ríkisstjórn hans hefur farið stigvaxandi, bæði heima fyrir og að utan eftir því sem á árásarstríðið á Gaza líður.
Benny Gantz hefur um langa hríð verið helsti pólitíski andstæðingur Netanyahu en gekk til liðs við ríkisstjórnin í október á síðasta ári með það að markmiði að mynda breiðfylkingu ólíkra sjónarmiða, nokkuð sem kallað hafði verið eftir í Ísrael eftir að stríðið á Gaza braust út.
Gantz sagði í gær að nauðsynlegt væri að setja niður dagsetningu fyrir kosningar í september, það myndi senda skilaboð til Ísreala um að þeir fengju fljótlega færi á að hafa sín áhrif en á sama tíma yrði hægt að halda hernaðaraðgerðum áfram.
Hörð mótmæli hafa verið í Ísrael síðustu daga þar sem mótmælendur hafa krafist kosninga. Mótmælendur hafa þá gagnrýnt Netanyahu og ríkisstjórn hans vegna þess hvernig þeim hefur misfarist að tryggja lausn 134 Ísraela sem hafa verið í haldi Hamas samtakanna frá stríðsbyrjun.
Netanyahu hefur hins vegar ítrekað að hann hyggist alls ekki boða til snemmbúinna kosninga, slíkt myndi aðeins gagnast Hamas-hreyfingunni. Afstaða Netanyahu kemur ekki svo mjög óvart enda benda skoðanakannanir til þess að hann og Likud flokkurinn myndu bíða ósigur í þeim. Kannanir benda til að Gantz og Þjóðareiningarflokkurinn myndu hafa sigur í kosningunum sem myndu að líkum leiða til að Gantz ætti forsætisráðherrastólinn vísan.
Ef af kosningum yrði má hins vegar ekki endilega búast við stefnubreytingu varðandi hernað Ísraela á Gaza né varðandi Palestínu yfir höfuð. Þó Ganz lýsi sér sem frjálslyndum þegar kemur að efnahagsmálum og vinstrisinnuðum þegar kemur að félagslegum málefnum, er hann harður hægrimaður varðandi öryggismál Ísraela og utanríkisstefnu. Hann er fyrrverandi hershöfðingi í Ísraelsher sem hefur lýst því að hann vilji herða tökin í landránsbyggðum Ísraela í Palestínu og á Gólanhæðunum, sem Ísraelar muni aldrei gefa upp.