„Ég sé ekki hvernig þetta getur verið þjóðarhagur,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingkona Sjálfstæðisflokksins, um ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur að bjóða sig fram til forseta. Ragnheiður var meðal gesta í Synum Egils fyrr í dag. Þann þátt má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.
Ragnheiður segir að það hafi komið sér verulega á óvart að Katrín hafi ákveðið að stíga þetta skref. Hún er ómyrk í máli og segir að Katrín sé einfaldlega að stökkva frá borði. „Það sem kemur mér mest á óvart í þessu, er að það er enginn sem ræðir það, finnst engum það skrýtið að Katrín Jakobsdóttir skuli fara frá borði. Mér finnst það vera stærsta fréttin í þessu, að núverandi forsætisráðherra, að hún skuli hætta á þessum tímapunkti, það eru 18 mánuðir í næstu kosningar samkvæmt því sem ætti að vera. Mér finnst það ekki vera rætt,“ sagði Ragnheiður og hélt áfram:
„Mér finnst það vera eftiráskýringar að hún hafi tekið þá ákvörðun að ætla ekki að gefa kost á sér í næstu Alþingiskosningum, „þess vegna geti ég farið fram núna“. Ég verð að segja mér finnst Katrín Jakobsdóttir flottur stjórnmálamaður, það hefur verið gaman að fylgjast með henni í gegnum tíðina. En það kom mér verulega á óvart að hún skyldi stökkva frá borði.“