Í samantekt frá óháðum bókara KPMG segir af færslum þar sem Hjálmar Jónsson, fyrrum formaður og framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands greiddi fyrir veitingar, ferðir fyrir lífeyrisþega og fleira sem tengist ekki almennum rekstri félagsins. Þetta virðist hafa verið gert án heimildar.
Í bréfi löggiltrar endurskoðunar til stjórnar Blaðamannafélagsins eftir að stjórn BÍ ákvað að láta skoða fjárreiður Hjálmars langt aftur í tímann segir:
„Ekki koma fram skýringar afhverju BÍ stofnaði til þessa kostnaðar og ekki fannst heimild frá stjórn fyrir þessum kostnaði. Félagið hefur greitt 7,6 m.kr. á árunum 2014- 2023 í föstudagskaffi, vorferð og jólaboð fyrir “föstudagshóp” sem eru lífeyrisþegar,“ segir í úttektinni.
Kostnaður vegna þessa tengist ekki beint starfsemi félagsins. Ekki var hægt að finna samþykki stjórnar fyrir þessum kostnaði.
„Það er skortur á aðgreiningu starfa hjá félaginu. Án aðgreiningar starfa er hætta á að misferli og villur uppgötvist ekki. Stjórn veiti samþykki fyrir kostnaði sem tengist ekki beint starfsemi félagsins hverju sinni,“ segir í úttektinni.
Áður hefur verið upplýst um agnúa á umsýslu framkvæmdastjórans svo sem fyrirframgreidd laun án heimildar vaxtalaust og fleiri atriði.