Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra VG, kann að hafa farið frjálslega með staðreyndir þegar hann greindi blaðamönnum frá því að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að Katrín Jakosdóttir hefði ekki greint fundinum frá ákvörðun sinni um forsetaframboð.
Í frétt Vísis segir: „Guðmundur Ingi segir að ákvörðun Katrínar liggi ekki fyrir enn sem komið er. Því er ljóst að Katrín tilkynnti ríkisstjórn sinni ekki á fundinum að hún ætli frá borði.“
Aftur á móti hefur orðið Höskuldarviðvörun (sem kunn er innan Framsóknarflokksins þegar skipti verða á forsætisráðherrum) komið upp ef vitnað er til ummæla Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra Framsóknarflokksins að loknum fundinum í morgun:
„Væntanlega hefur forsætisráðherra talað við ykkur eða mun tala við ykkur?
„Hún upplýsti okkur um ákvörðun sína og svo tökum við bara á því sem gera þarf,“ sagði Sigurður Ingi við Rúv.
„Munt þú leiða nýja ríkisstjórn? Spyr fréttamaður:
„Þetta er ákvörðun sem liggur fyrir núna. Í kjölfar á henni þurfum við að taka samtal.“
Sumir túlka ummæli Sigurðar Inga sem svo að auknar líkur séu á að Katrín tilkynni Guðna Th Jóhannessyni í dag að hún hætti í ríkisstjórninni þá verði Sigurður Ingi forsætisráðherra.