Hæstaréttarlögmaðurinn Einar S. Hálfdánarson, faðir Diljár Mistar Einarsdóttur alþingismanns, sakaði í grein í Morgunblaðinu um liðna helgi Gísla Martein Baldursson um hræsni sökum þess að hann hefði ákveðið að lýsa ekki Eurovision í ár. Hræsni Gísla Marteins á samkvæmt Einari að vera fólgin í því að hann hafi árið 2016 lýst Eurovision keppni sem Íslendingar tóku þátt í og fór fram í Azerbaijan. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar, þegar að röksemdafærslu Einars kemur, að Gísli Marteinn lýsti ekki Eurovision í Azerbaijan. Né heldur var Eurovision haldið í Azerbaijan árið 2016.
Einar er líklega hvað frægastur fyrir að hafa á þessu ári að tilefnislausu kært tvær konur sem vinna að því að bjarga Palestínumönnum frá Gaza. Lögreglan hætti rannsókn vegna kærunnar í snemma í þessum mánuði, enda þótti enginn grundvöllur vera fyrir henni.
Einar fer í grein sinni mikinn um ofsóknir þær sem armenskir minnihlutahópar hafi þurft að þola af hendi Azera, einkum í Nagorno-Karabakh héraðinu. Það rekur Einar til þess að Azerar séu múslimar en Armenar séu „fyrsta kristna þjóðin í heiminum“. Einari virðist ekki sérstaklega vel við múslima af því sem sjá má í tíðum greinaskrifum hans í Morgunblaðinu. Hann skrifaði til að mynda mikla og innblásna grein þegar árið 2014 þar sem hann agnúaðist út í fyrirætlanir um að í Reykjavík yrði reist moska.
Einar lýsir því að á 10. áratug síðustu aldar hafi Azerar rekið Armena úr landi í stórum stíl, en hefur raunar ekki fyrir því að minnast á að Armenar gerðu nákvæmlega hið sama og ráku Azera úr landi einnig. Skal þó ekki draga hér úr því að Armenar hafa þurft að þola mikla mismunun og ofsóknir af hendi Azera.
Segir Einar að víðtæk mannréttindabrot hafi verið framin á Armenum í aðdraganda Eurovisionakeppninnar 2016, sem þó fór ekki fram í Azerbaijan eins og fyrr segir. „Ekkert stoppaði Gísla Martein Baldursson frá því að fara til Aserbaídsjan og lýsa Evróvisjón. Hann mun hafa hrósað öllu, en það hef ég ekki frá fyrstu hendi. Ég horfi nefnilega aldrei á sjónvarp með Gísla Marteini,“ skrifaði Einar.
Kannski Einar hefði betur horft á sjónvarp með Gísla Marteini, en þá hefði hann vitað að árið 2016 var Eurovision haldið í Stokkhólmi í Svíþjóð, þar sem Gísli Marteinn vissulega var kynnir. Gísli Marteinn lýsti ekki Eurovision í Azerbaijan, hvorki árið 2016 þegar keppnin var ekki haldin þar, né heldur í eina skiptið sem keppnin hefur verið haldin í Azerbaijan, árið 2012. „Hef aldrei komið þangað,“ skrifar Gísli Marteinn sjálfur á X, áður Twitter.