Notendur verða neyddir til auglýsingaáhorfs

Samfélagsmiðlarisinn Meta hefur nú tilkynnt að á Instagram, einum af stærstu miðlum sínum, muni auglýsingar brátt verða með þeim hætti að notendur verða neyddir til að horfa á þær.

Upp að þessu hefur notendum verið fært um að hreinlega hunsa þær og fara áfram yfir í næstu færslu.

Fyrirtækið hyggst prufukeyra þessi nýju áform, sem þegar hafa orðið að veruleika á Facebook og YouTube, eins og fólk hefur eflaust tekið eftir. Sé horft á myndbönd á þeim miðlum þá lendir maður iðulega í því að þurfa að sitja í gegnum 15-30 sekúndna auglýsingu áður en hægt er að horfa á efnið, eða jafnvel er gert hlé í miðju myndbandi til að sýna aðra auglýsingu, sem ekki er hægt að sleppa og því neyðist notandinn til að horfa á það.

Það er því næsta víst að Instagram mun innleiða þetta „auglýsingahlé“, eins og það er víst kallað, að fullu, enda öllum ljóst að notendum leiðist slík hlé á öðrum miðlum og ekki annars að vænta að notendum Instagram muni þykja það sama. Það er því ákveðinn fyrirsláttur að mála þetta upp sem prufukeyrslu, enda hagsmunir fyrirtækisins þeir að auglýsa sem flestum sem mest, rétt eins og hjá öðrum samfélagsmiðlum.

Þar liggur máski hundurinn grafinn. Þessi ótæmandi þörf fyrir sívaxandi auglýsingar þar sem við notendur erum mjólkurkýrnar. Hvatinn þar að baki er öllum morgunljós, hvati hlutabréfakapítalismans sem heimtar ávallt vaxandi tekjur. Hluthafar í Meta geta ekki sætt sig við staðnaðan vöxt, sem nota bene myndi einfaldlega þýða að fyrirtækið hafi staðið sig alveg jafn vel það árið og það sem kom á undan. Það er í heimi hluthafanna neikvæður hlutur og hefur áhrif á virði hlutabréfanna. 

Það sem slíkur öfgakapítalismi krefst er óendanlegur vöxtur, til hins endalausa, svo virði hlutabréfanna aukist og hluthafar græði.

Það er hins vegar eitthvað þak í þeim efnum, einfaldlega vegna þess að við búum ekki í óendanlegum heimi á þessari plánetu. Það er bara ákveðinn fjöldi af fólki sem er til yfirhöfuð sem getur horft á auglýsingar og hvað þá keypt vörurnar sem haldið er að okkur.

Þannig að notendur Instagram, sem og Facebook, YouTube, TikTok og Google, geta allir búist við því á næstu árum að sjá vaxandi fjölda auglýsinga í öllum hornum, vaxandi ágengni þeirra og því að verða í auknum mæli tilneyddir til að horfa á þær. Á einhverjum tímapunkti munu þessir miðlar svo innihalda fleiri auglýsingar en efni og þá hrynja þeir kannski, hluthafar taka út gróðann sinn og fjárfesta í nýjum samfélagsmiðli og hringekjan hefst á ný.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí