Samtals 13 ungliðahreyfingar á Íslandi hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu undir nafninu „Mannréttindi yfir pólitík“ sem fordæmir fyrirhugað frumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, um breytingar á útlendingalögum. Sameinuð yfirlýsing svo margra hreyfinga ungmenna er eftirtektarverð.
Eins og Samstöðin hefur áður fjallað um hefur umrætt frumvarp dómsmálaráðherra komið á fleygiferð út úr nefnd og reyna á að koma því í gegn fyrir sumarfrí þingsins, en ef ekki þá strax á næsta þingi. Frumvarpið snýst í meginatriðum um það að þrengja skilyrði og herða reglur fyrir hælisleitendur og flóttafólk, sér í lagi fyrir fjölskyldusameiningar og að hraða afgreiðslutíma mála með það markmið að fækka þeim sem geta sótt um og vísa fólki hraðar frá.
Yfirlýsing ungliðahreyfinganna segir að ungmenni á Íslandi hafi „verulegar áhyggjur af áframhaldandi neikvæðri þróun núverandi ríkisstjórnar í málefnum útlendinga“. Þess sé krafist að allar breytingarnar sem standi til „verði gerðar með mannréttindi að leiðarljósi“.
Afstaða þessara hreyfinga er sú að ungmennin fordæma umrætt frumvarp um breytingar á útlendingalögum.
Hreyfingarnar slást þannig í hóp með mannréttindasamtökin á borð við „Rauða krossinn á Íslandi, Barnaheill, UNICEF á Íslandi, Umboðsmann barna, ÖBÍ, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Íslandsdeild Amnesty International“ sem hafa öll fordæmt frumvarpið eins og það leggur sig.
Atriði frumvarpsins sem eru sérstaklega gagnrýnd af ungliðahreyfingunum eru til að mynda sú breytinga að nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála verði fækkað úr sjö í þrjá. Ungliðahreyfingarnar segja það muni hafa þær afleiðingar að setja meira álag á nefndarmenn, valda minni skilvirkni og lengja afgreiðslutíma ef eitthvað er, þvert á yfirlýst markmið frumvarpsins um að hraða þeim.
Þá sé það alvarlegt að skipun nefndarinnar verði alfarið í höndum dómsmálaráðherra með breytingunum, þar sem „ekki er tryggt að mismunandi og fjölbreytt sjónarhorn og þekking á málaflokknum komi að borðinu“. Í núverandi fyrirkomulagi hafi fulltrúar setið í nefndinni frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands sem dæmi.
Einnig gagnrýna ungliðahreyfingarnar ákvæði frumvarpsins sem þrengja að skilyrðum fjölskyldusameiningar. Gríðarlega erfitt muni reynast fyrir flóttafólk og hælisleitendur að uppfylla þau hertu skilyrði, svo sem aukin skilyrði um trygga framfærslu, íslenskukunnáttu, íbúðarhúsnæði og fleira, sem allt á að vera tryggt innnan árs. Skrítið sé líka að íslensk stjórnvöld setji sérreglur fyrir fjölskyldusameiningar fólks á flótta þar sem aðeins 5% leyfa frá árinu 2013 hafi verið í þeim flokki.
Frumvarpið sé að „stofna rétt barna til að sameinast fjölskyldu sinni í hættu“
Fjölskyldusameiningar snúast fyrst og fremst um hagsmuni barna og segja ungliðahreyfingarnar að með hertum skilyrðum frumvarpsins sé verið að „stofna rétt barna til að sameinast fjölskyldu sinni í hættu“.
Þá vísar yfirlýsingin í umsögn Umboðsmanns barna um frumvarpið sem sagði breytingarnar „augljóslega geta haft þau áhrif að börn verði fjarri foreldrum sínum í langvarinn tíma“, oft væru börn þá væntanlega í sama hættuástandi sem olli því að foreldri eða skyldmenni flúði til að byrja með. „Enn fremur er ljóst að það getur haft slæmar afleiðingar fyrir heilbrigði, þroska og öryggi barna að vera án umsjár foreldra sinna til langs tíma“, segir í umsögninni.
Umrædd umsögn var virt að vettugi í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í síðustu viku sem hleypti frumvarpinu áfram án athugasemda eða breytinga. Dómsmálaráðherra kallaði umsögnina „ótæka“ í klassískum valdshroka sem einkennir oft hennar málflutning.
Þingflokkur Vinstri grænna hefur sett „fyrirvara“ við innihald frumvarpsins en ætla sér samt að kjósa með því. Ríkisstjórnin hefur einnig ríflegan meirihluta þar sem þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins þykja líklegir til að styðja það, sem og mögulega einhverjir úr röðum Samfylkingarinnar. Á þingi eru Píratar og Viðreisn þau einu sem virðast ætla að beita sér gegn því, Píratar einna helst, en það var þingflokkur þeirra sem krafðist álits nefndar á umsögn Umboðsmanns barna.
Ungliðahreyfingarnar krefjast í lok yfirlýsingar sinnar, að „ný útlendingalög verða samin í samráði við sérfræðinga í málaflokknum, mannréttindasamtök og hagsmunaaðila. Lög um alþjóðlega vernd verða að vera gerð með mannréttindi að leiðarljósi.“
Hreyfingarnar sem um ræðir eru:
- Ungheill, ungmennaráð Barnaheilla
- Q-félag hinsegin stúdenta
- Röskva- samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands
- Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International
- Háskólahreyfing Amnesty
- Femínistafélag Háskóla Íslands
- Antirasistarnir
- Ungir umhverfissinnar
- Ungmennaráð UNICEF
- Ungmennaráð UN women
- Ungt jafnaðarfólk
- Ungir píratar
- Ungir sósíalistar
Yfirlýsing ungmennanna: