Gullgrafaræði ferðamannaiðnaðarins líður senn undir lok – nema almenningur borgi brúsann

Mikið er fjallað um samdrátt í fjölda ferðamanna undanfarið og þá hvín allra jafna hæst í talsmönnum ferðamannaiðnaðarins. Þeirra mat er ávallt hið sama, almenningur þarf að kosta til frekari markaðssetningu fyrir iðnaðinn og samdráttur er öllum öðrum að kenna en þeim.

Þetta mátti heyra hvað skýrast í orðum Péturs Óskarssonar, formanns Samtaka ferðaþjónustunnar, í síðustu viku.

Pétur var í viðtali við fréttir Stöðvar 2 og taldi áhyggjuefni hvað „eftirspurnin væri að gefa eftir og inn í sumarið“. Umræddur samdráttur er 7,1% fækkun gistinótta miðað við í fyrra.

Pétur var þó ekki á því að byrði samdráttar væri nokkurs annars en fyrirtækjanna í iðnaðinum, þvert á móti myndi „sérstaklega“ reyna á „ríkissjóð og opinberu kerfin okkar sem treysta á tekjur af ferðaþjónustunni“.

Lykilástæður samdráttarins taldi Pétur vera samkeppnishæfi Íslands. „Hér er mikil verðbólga. Ísland er mjög dýrt. Það eru há laun, það eru háir skattar. Nýr skattur lagður á ferðaþjónustuna um áramótin, gistináttaskattur. Við erum komin upp í þakið hvað varðar verðlagningu.“

Með öðrum orðum þá er verðlagningin í ferðamannaiðnaðinum ekki drifin áfram af fyrirtækjunum sem þar starfa. Nei, það eru svimandi há laun starfsfólks og háir skattar.

Taka skal með í þann reikning að starfsfólk hótela og veitingahúsa eru allra jafna lægst launaðasta fólkið á Íslandi. Háir skattar eru svo hið minnsta sem yfirvöld geta gert til að skila tekjum af þessum iðnaði til samfélagsins, sem vega þó ekki upp á móti skaðanum sem iðnaðurinn veldur fyrir innviði landsins og náttúru, þá sérstaklega heilbrigðiskerfi og húsnæðismarkaðinum.

Pétur vísaði þá sérstaklega í nýjan gistináttaskatt sem kom til um áramótin og taldi sligandi. Gistináttaskattur er venjan í nær öllum samanburðarlöndum okkar og er raunar mjög hóflegur eða 600 krónur á nótt fyrir hótel og aðra gististaði. Sé næsta helgi bókuð á Hótel Reykjavík Grand sem dæmi þá eru valkostirnir frá 27.695 krónum upp í 53.195 krónur fyrir nóttina. Aukreitis 600 krónur eru varla úrslitaatriðið þar.

Enda kemur þar í ljós aðalatriðið. Verðlagningin er „komin upp í þakið“ eins og Pétur segir. Þar liggur sökin þó fyrst og fremst hjá fyrirtækjunum sjálfum sem setja þá verðlagningu. Ef lúsarlaun hótelstarfsmanna og smávægilegir gistináttaskattar eru nóg til að gera út af við hótel sem dæmi, þá má líka spyrja hvort rekstrargrundvöllur sé yfirhöfuð fyrir slíkt hótel?

Þar kemur stefnuleysi yfirvalda inn í myndina, en það er ljóst að hver einasta ríkisstjórn frá Hruni hefur hampað og fagnað gengi ferðamannaiðnaðarins, einna helst vegna þess að jákvæðar atvinnutölur og hagvöxtur varð þannig til án þess að einn einasti stjórnmálaleiðtogi þyrfti að lyfta fingri, en þau gátu montað sig samt af stöðunni. Engin stefnumótun var nokkurn tímann um hvernig stýra þyrfti þessum iðnaði til að milda áhrifin á húsnæðismarkaðinn og heilbrigðiskerfi, skólana og leikskólana.

Nú virðist sem svo að ferðamannaiðnaðurinn hafi orðið ofsavexti og okurverðlagningu sinni að bráð, enda líða öll gullgrafaræði undir lok á einhverjum tímapunkti. Þá er spjótunum hins vegar beint að almenningi sem skal dæla skattféi sínu í markaðssetningu til að halda ofsavextinum áfram til hins endalausa, alveg sama hvaða frekari áhrif það hefur á innviði landsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí