Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, krefst afsökunarbeiðni vegna þess sem hann kallar falsfrétta Moggans um styrki. Gefur þingmaðurinn til kynna að blaðamaðurinn Andrés Magnússon hafi vitað betur en hann lét í veðri vaka við fréttaskrifin um styrki til Flokks fólksins.
„Því er fljótsvarað það er ekki orð að marka stjórnmálaumfjöllun Morgunblaðsins, en þessi aðgerðablaðamennska Andrésar Magnússonar, Stefáns Einars og Andreu Sigurðardóttur er komin á þann stað að þau geta með fullum sóma kallað sig falsfréttmenn,“ segir Sigurjón herskár.
„Það á m.a. við um hvernig blésu upp örlítinn formgalla á skráningu Flokks fólksins með afar ógeðfelldri framsetningu þar sem látið var í veðri vaka að eitthvert misferli væri í gangi. Nú er komið í ljós að fleirum en Flokki fólksins varð á hvað umrætt atriði varðar og ég tel að ganga megi að því vísu að það hafi „fréttamennirnir“ vitað allan þann tíma sem stórfurðurlegur fréttaflutningur þeirra stóð yfir. Fólkið í landinu sér það augljósa þ.e. ritstjórn Moggans hefur ákveðið að gera Ingu Sæland að skotmarki sínu,“ skrifar Sigurjón á facebook og er hvergi nærri hættur:
„Alls kyns flokksþrælar og forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa síðan endurvarpað þessu bulli á opinberum vettvangi m.a. um markmið laganna og jafnvel gefið í skyn að það hafi verið að taka fé ófrjálsri hendi.
Meðal þeirra sem hafa hlaupið á sig eru; Jón Steinar Gunnlaugsson sem skrifaði áburðamikið bull um lögin og markmið þeirra. Áslaug Arna og Dr. football reyndu að gera sig breiða með því að veifa þessu bulli, fl. fl. má telja upp m.a. Sindra Sindrason, flokksmaðurinn í Bítinu og jú Björn Bjarnason sem heiðraði FB-síðuna mína með því að bræla algera dellu um málið.
Mun eitthvað af þessu fólki sem gekk hve lengst í að spinna delluna sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar?“ Skrifar Sigurjón Þórðarson.