Íbúar í miðbænum eru ekki öll sammála um ágæti gjaldheimtu í bílastæði fyrir utan húsin þeirra og telja einhver að vegið sé að réttindum þeirra nú þegar tekið er gjald víðast hvar sem leggja má í borginni sjö daga vikunnar.
Á facebooksíðu sem ætluð er íbúum miðborgar fara nú fram all-hressileg skoðanaskipti yfir viðtali sjónvarpskonunnar gamalreyndu Völu Matt við menningarhjónin Ólaf Egil Egilsson og Esther Talíu Casey sem að eigin sögn hafa búið í miðborginni alla sína tíð. Hjónin kveðast verða fyrir ákveðinni mismunun vegna búsetu sinnar við Grettisgötu þar sem gjald er jafnan tekið fyrir bílastæði alla daga vikunnar, frá morgni til kvölds. Þau segja að gestkomandi þurfi að reiða fram allt að þúsundum króna fyrir að sækja þau heim í matarboð um helgar.
Ekki eru öll á sama máli um hvort kalla eigi gjaldheimtuna mismunun og leggja nokkrir þekktir miðborgarbúar til sín tvö sent við upphafsinnleggið sem sjá má hér fyrir neðan.
„Bílastæði eru ekki ókeypis gæði“ segir Egill Helgason meðal annars en hann kveðst hafa annan fótinn í Boston þessi dægrin þar sem bílastæðagjöld séu marföld á við hérna og uppsker nokkuð lof fyrir.
„Talið alveg galið að ungt fólki í námi reki bíl annarstaðar í Evrópu,“ bætir Valgerður Árnadóttir fyrrum varaþingmaður Pírata og stjórnarkona Náttúruverndarsjóðs við langan hala ummæla undir færslunni og lætur ekki staðar numið þar „Það er mjög eðlilegt að miðborgir séu jafnvel bíllausar og eðlilegt að ekki sé hægt að leggja beint fyrir utan húsið sitt,“ segir Vala einnig.
Hildur Lilliendahl, verkefnastjóri bendir á að auðvitað geti aðstæður fólks og þarfir verið mismunandi eftir heimilum en sjálf hafi hún og eiginmaðurinn hætt að nota bíl 2011 þá með barn í grunnskóla og annað í leikskóla í öðru póstnúmeri. Það sé leikur einn að koma sér upp betri venjum þegar kemur að bílaeign.
„Þetta tal um mismunun er ekki alveg rökrétt. Það fylgja því kostir og gallar að búa í miðborg höfuðborgar. Einn af göllunum, ef þú og allir matargestirnir þínir eru á einkabílum og hafa ekki efni á bílastæðagjöldum eða geta ekki gengið 3-400 metra, er að kannski verða matarboðin færri eða það þarf stundum að fá aðstoð við hitt og þetta. Ef þú býrð í Jörfabakka eða Jónsgeisla er það kannski síður vandamál en þá máttu líka eiga von á að það taki 20 mínútur á bíl að komast á tónleika í Hörpu eða að það taki þig 40 mínútur að komast heim úr vinnunni á bíl úr Hörpu. Er það líka mismunun?“ spyr Hildur.