Ekki hefur skort á ýmis áhugaverð ummæli í opinberri umræðu síðustu daga vegna afsagnarmáls Ástu Lóu Þórsdóttir barnamálaráðherra og umdeildrar fréttamennsku Rúv.
Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar og ráðherra, er í hópi þeirra sem hafa tjáð sig ítrekað á samfélagsmiðlum. Hann fordæmir vegferð Ríkisútvarpsins í málinu og vill að þáttur Áslaugar Örnu, þingmanns Sjálfstææðisflokksins, verði skoðaður eftir að fram kom að hún fékk snemma upplýsingar frá fyrrum tengdamóður barnsföður Ástu Lóu um fortíð ráðherrans.
Jón Gunnarsson, fyrrum ráðherra og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gefur til kynna í athugasemd við færslu Össurar á facebook að sjálfstæðismenn viti af fleiri álitaefnum í fortíð meðlima ríkisstjórnarinnar eða stjórnarmeirihlutans. Má ráða af orðum hans að frekari upplýsingum verði síðar spilað út. Þetta vekur athygli í ljósi þess að mikil umræða hefur orðið um hvort lekinn til Rúv vegna fortíðar Ástu Lóu hafi verið af pólitískum toga frá andstæðingum ríkisstjórnarinnar.
„Við vitum að það eru fleiri beinagrindur í skottinu hjá ykkur og einn daginn munuð þið þurfa að reyna að jarða þær líka,“ segir Jón Gunnarsson við Össur í athugasemd.
Geta má þess að Ásta Lóa ræddi við afsögn sína að flestir þingmenn væru sennilega með beinagrindur í skápnum og átti þar við gömul mál sem enginn væri stoltur af – gamlar syndir.