„Svona segir „góða fólkið,““ segir fjölmiðlamaðurinn Jón Axel Ólafsson á facebooksíðunni „Ísland þvert á flokka“ – um grein sem þingmaður Samfylkingarinnar skrifar um fánanotkun.
Málflutningur sem ýtir undir mismunun og hefur kannski að mestu hingað til farið fremur leynt í innstu afkimum Internetsins, hefur verið áberandi eftir að fundur fór fram um helgina undir beru lofti á Austurvelli hjá hópi sem vill mótmæla stefnu stjórnvalda í útlendingamálum. Margir þjóðernissinnar sóttu fundinn. Hefur verið rætt um rasísk sjónarmið fundarins og jafnvel nasisma.
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, er meðal þeirra sem hafa skrifað harðorðan pistil í viðbragðsskyni við fundinum. Hann ræðir sérstaklega framkomu eins fundarnanns og segir bæði „sorglegt og skelfilegt“ að fjöldi fólks hafi mætt á túnblettinn á Austurvelli og klappað fyrir „þessu fjandsamlega samsærissulli“ tónlistarmannsins Binna „í treyju merktri AH. „Vandi íslenskt samfélags verður ekki leystur með lygum og skautun,“ segir Grímur. Með skammstöfuninni AH vísar Grímur til Adolfs Hitlers.
Eitt af því sem vakti athygli á fundinum var tilkomumikil fánaborg íslenska fánans sem einkenndi stemmninguna á Austurvelli.
„Þið sem viljið nýta tjáningarfrelsið ykkar á þennan hátt ættuð að hugleiða það að búa ykkur til sérstakan fána því íslenski fáninn er sannarlega ekki merki þess sem þið boðið,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, í aðsendri grein á Vísi. Ása Berglind þingkona er til marks um “góða fólkið” samkvæmt Jóni Axel Ólafssyni fjölmiðlamanni sem fyrr segir. Hún segir íslensku fánana hafa verið notaða sem sundrungartákn á fundinum þegar fáninn eigi þvert á móti að vera sameiningartákn allra landsmanna.
Loks stoltir á ný?
Á fyrrnefndri facebook-síðu þjóðernissinnanna kemur fram mikil ánægja með fjölmennið á fundinum og talsverða fjölmiðlaumfjöllun. Segja nokkrir meðlimir að loks fái þeir stoltir að vera Íslendingar á ný eftir margra ára hnignunarskeið og er þar átt við frjálst flæði fólks og alþjóðahyggju.
Hvatt er til þess á síðunni að notendur kjósi í viðhorfskönnun Bylgjunnar um landamærin þar sem einn kosturinn er að loka hreinlega Íslandi alveg fyrir innflytjendum.
Þá hefur ánægju verið lýst með að Karol Nawrocki hafi verið kjörinn forseti Póllands í nótt. Hann lítur til Trump með aðdáun og er yfirlýstur þjóðernissinni.
Samstöðin mun með ítarlegum hætti fjalla um þessar vendingar og meira til við Rauða borðið í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 20 og má hlusta á hann í útvarpinu, FM 89,1 á rás 5 fyrir þá sem nota sjónvarpsþjónustu Símans, í beinni á facebook með því að fylgja Samstöðinni, nota youtube í beinni eða hlusta á Samstöðina á spilarinn.is svo aðeins nokkrir valkostir séu nefndir.