„Ef ÍL-sjóður er settur í þrot er það ekkert annað en greiðslufall hjá ríkissjóði, það er mín persónulega skoðun,“ sagði Már Wolfgang Mixa, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðnum í Kastljósi í kvöld.
Már var að bregðast við hugmyndum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að hóta lánardrottnum ÍL-sjóðs, sem er megnið af gamla Íbúðalánasjóðnum, að setja sjóðinn í þrot og hlaupa frá ríkisábyrgðinni.
„Ríkissjóður er í raun að senda út skilaboð til fjárfesta að hann noti öll ráð sem í boði eru til að koma sér undan skuldbindingum sínum,“ sagði Már. Hann sagði ómögulegt að ráða í hvaða afleiðingar þetta kunni að hafa.
„Fjárfestar gætu hætt að líta á ríkistryggð bréf sem áhættulausar skuldbindingar,“ sagði Már. „Vaxtakostnaður ríkissjóðs gæti stóraukist að ég tali nú ekki um ef lánshæfismatsfyrirtækin færu að vega þetta og meta og myndu jafnvel lækka lánshæfismat ríkisins.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga