Guðmundur felldi Kjartan sem formann framkvæmdastjórnar xS

Stjórnmál 29. okt 2022

Guðmundur Ari Sigurjónsson, oddviti Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, vann afgerandi sigur í kosningu um formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Og felldi þar með Kjartan Valgarðsson, fyrrum formann, en mikill styrr hefur staðið um Kjartan undanfarin misseri.

Kjartan hefur einkum verið gagnrýndur fyrir tvennt. Annars vegar að val á lista fyrir síðustu þingkosningar hafi mistekist, borið með sér alla ágalla bæði prófkjöra og lokaðs vals. Og fyrir val fólks í stjórn verkalýðsmálaráðs þar sem raðaði sér inn hatramir andstæðingar þess sem kalla mætti róttækari verkalýðsbaráttu, þess hóps sem nýtur mest stuðnings meðal almennings. Samstöðin hefur greint frá þessari óánægju með Kjartan að undanförnu.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði, felldi líka Alexöndru Ýr van Erven sem ritara Samfylkingarinnar með 60% atkvæða. Arna Lára er búin að vera í bæjarstjórn Ísafjarðar, sem eitt sinn var sagður kratabær, í 18 ár en Alexandra er 28 ára og með reynslu úr stúdentapólitíkinni.

Jón Grétar Þórsson formaður Samfylkingarfélagsins í Hafnarfirði, sem eitt sinn var líka kallaður kratabær, var kjörinn gjaldkeri með 50% atkvæða en fyrrum gjaldkeri, Hákon Óli Guðmundsson, bauð sig ekki fram.

Stjórn Samfylkingar er mynduð af formanni, varaformanni, ritara og gjaldkera, auk formanni framkvæmdastjórnar, þingflokks og sveitastjórnarráðs. Nú er ljóst að þarna koma inn fimm nýir af sjö: Kristrún Frostadóttir formaður, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður, Arna Lára Jónsdóttir ritari, Jón Grétar Þórsson gjaldkeri og Guðmundur Ari Sigurjónsson formaður framkvæmdastjórnar. Fyrir eru Helga Vala Helgadóttir formaður þingflokksins og Sabine Leskopf formaður sveitastjórnarráðs flokksins.

Landsfundurinn samþykkti að fella „manna“ úr nafni flokksins, sem heitir nú Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands en ekki Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Þá var rauði bletturinn felldur sem merki flokksins og ákveðið að taka upp kratarósina sem Alþýðuflokkurinn hafði sem merki á síðustu árum sínum. Kristrún Frostadóttir notaði rósina á fundarferð sinni um landið.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí