„Ég hef tekið þá ákvörðun að segja mig úr Samfylkingunni og styðja flokkinn ekki lengur,“ skrifaði Axel Jón Ellenarson, kynningarfulltrúi Sameykis inn á lokaðan Facebook-hóp Samfylkingarinnar um kvöldmatarleytið. Ástæðan sem Axel Jón gefur upp eru árásir stjórnarfólks í Verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar á Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveigu Önnu Jónsdóttur og þær undirtektir sem þær fá hjá forystufólki í flokknum.
„Ástæðan er að flokkurinn er orðinn beinn þátttakandi í óeiningu innan verkalýðshreyfingarinnar. Þingmenn flokksins styðja með beinum hætti níðskrif um nafngreint fólk og meðlimir Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar eru þátttakendur og misnota vald sitt og dreifa eigin níðskrifum með lævísum hætti þar sem segir: „Athyglisverð grein um stöðuna innan ASÍ“. Það finnst mér ekki sæmandi forystu flokksins að taka þátt í slíkri óeiningu,“ skrifar Axel Jón.
Flokksfélagar taka sumir undir með Axel Jóni. „Það er ótrúlega óklókt að gefa þennan höggstað á sér,“ skrifar Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og eiginmaður Helgu Völu Helgadóttur þingmanns flokksins. „Samfylkingin verður að geta hýst ólíkar skoðanir um leiðir í verkalýðsbaráttunni og svona „saklaus“ deiling á grein er bara til að eyðileggja.“
Meðal þeirra sem hafa deilt grein forystu Verkalýðsmálaráðsins með árásum á Ragnar Þór og Sólveigu Önnu er Þórunn Sveinbjarnardóttir.
„Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar er flokknum til skammar og var nú ekki á bætandi í þeim málaflokki,“ skrifar Þorvaldur Sverrisson, auglýsingamaður og sonur Guðrúnar Helgadóttur heitinnar, sem var borgarfulltrúi og þingkona Alþýðubandalagsins árum saman. „Þetta er fáránleg hegðun og furðulegt að fólk geti beinlínis ruðst inn og yfirgefið stefnu flokksins í lykilmáli.
Val á stjórn Verkalýðsmálaráðsins var gagnrýnt fyrr á árinu en þar var raðað inn hópi af fólki sem harðast hafði barist gegn Sólveigu Önnu Jónsdóttur í Eflingu og Starfsmannasambandinu. Þetta var aðgerð sem runnin var undan rifjum Kjartans Valgarðssonar framkvæmdastjóra flokksins, sem mörgum í grasrótinni þykir heldur valdamikill orðinn.
„Ég held að Kjartan og hópur í kringum hann mati forystuna af því sem haldið er fram að sé vilji grasrótarinnar,“ sagði einn flokksmanna í samtali við Samstöðina, „en ég held og vona að fáir í flokknum telji það klókt fyrir Samfylkinguna að stilla sér upp gegn öflugasta fólkinu í verkalýðshreyfingunni. Ætti Jafnaðarmannaflokkur ekki að fagna auknum krafti í verkalýðshreyfingunni í stað þess að berjast gegn honum?“
Myndin er af Axel Jóni og stjórnarfólki í Verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga