„Hugmyndin er einfaldlega að gefa börnum kost á að taka þátt, en þau fá einfaldlega ekki um það að velja eins og staðan er í dag. Þau þurfa ekki þar með sagt að taka þátt, ekki fremur en ég sem er orðinn fullorðinn og hef oft sleppt því af fúsum og frjálsum vilja að ganga til atkvæðagreiðslna fyrir ýmsar ástæður,“ segir Karl Ólafur Hallbjörnsson um ein mótrökin gegn því að hætta að takmarka kosningarétt við aldur. Sem sé að gefa börnum kosningarétt.
Karl Ólafur skrifaði grein á blogsvæði sitt, „Varnið þeim eigi“ – málsvörn fyrir barnalýðræði og kom að Rauða borðinu til að ræða þá hugmynd sem hann ver í greininni, að kosningaréttur ætti að vera almennur og ekki skerðast þannig að aðeins fólk 18 ára eldri mætti nota þetta rétt.
Fyrst þegar annað fólk en efnamiklir karlar fengu að kjósa á Íslandi voru aldursmörkin sett við 40 ár. Með nýrri stjórnarskrá stuttu síðar var þetta fellt úr gildi og mörkin sett við 25 ár. Þessi hugmynd íslenskra karla að konur og eignalausir karlar hefðu ekki vit á samfélagsmálum á við þá sjálfa fyrr en eftir fertugt stóðst ekki nýja stjórnarskrá.
1934 var kosningaaldurinn lækkaður í 21 ár, í 20 ár 1968 og í 18 ár 1983.
Það er algengast í ríkjum heims að miða kosningaaldur við 18 ár. Í Grikklandi og fáeinum öðrum löndum er hann 17 ár og 16 ár í nokkrum löndum, m.a. Skotlandi, Austurríki, Brasilíu og Argentínu. Þetta er ekki náttúruleg mörk heldur mannanna verk.
„Hvers vegna var talan hærri árið 1915 en árið 2022?“ spyr Ólafur Karl. „Hefur einhver lífeðlisfræðileg stökkbreyting átt sér stað síðustu 100 árin sem flýtir fullþroska barna um þessi sjö ár sem munar á milli aldurstakmarkanna? Því miður er svarið einfaldlega nei. Aldurstalan er alfarið valin út frá geðþótta full-orðinna, geðþótta þeirra sem eru stærri og sterkari og reyndari en börn, sem eru ekki full-orðin heldur kannski bara hálf-orðin. Talan er ekki rökstudd að neinu leyti í stjórnarskrá eða í lögum – hún er einfaldlega tilgreind án nokkurra haldbærra skýringa.“
„Skýtur þetta ekki skökku við?“ spyr Ólafur Karl. „Börnin eru óumdeilanlega lýðurinn rétt eins og við hin sem erum orðin eldri, alveg óháð því hvort þau hafi náð einhverjum tilfallandi aldri – hvort sem það er 18 árin sem til þarf fyrir þátttöku í Alþingiskosningum eða 35 ára aldurinn sem er tilgreindur fyrir þátttöku í forsetakosningum.
Raunar má færa sterk rök fyrir því að börn eigi meira tilkall til þess að vera „lýðurinn“ en þau okkar sem hafa náð hærri aldri – þau eiga jú meiri hlutdeild í framtíð lýðræðisríkisins en fullorðið fólk einfaldlega vegna þess að þau eiga fleiri ár eftir af henni ólifuð að meðaltali; 10 ára barn á óumdeilanlega fleiri ár eftir ólifuð sem lýðræðisþegn en sá sem er orðinn áttræður.
Þrátt fyrir það gera stjórnarskráin og samfélag okkar allt einfaldlega ráð fyrir því að börnum sé ekki treystandi fyrir því að taka ákvarðanir um eigin framtíð. Samkvæmt þessu fyrirkomulagi er einstaklingi sem nær 18 ára aldri á kjördag fullkomlega treystandi fyrir því að hafa skoðun um eigin framtíð, en ekki 17 ára einstaklingi sem yrði 18 ára gamall daginn eftir kjördag.“
Það hefur ekki verið mikið rætt um kosningarétt barna á Íslandi. Erlendis hefur verið rætt um kosti hans í fræðasamfélaginu, sem tæki til að styrkja og endurnýja lýðræðið en líka innan samtaka barnafjölskyldna sem leið til að auka vægi þeirra innan stjórnmálanna. Rökin eru annars vegar út frá mannréttindum, að óboðlegt sé að taka réttindi af börnum nema til að vernda þau og erfitt sé að réttlæta sviptingu kosningaréttar með þeim tökum. Og hins vegar út frá félagslegum rökum, að það skekki lýðræðisgrunn stjórnmálanna að svona stór hópur hafi ekkert að segja um stjórn samfélagsins, að það leiði til þess að réttur hans sé fyrir borð borinn.
Varðandi framkvæmd hafa allskyns útgáfu verið nefndar. Ein er að allir fái sjálfkrafa kosningarétt sextán ára en yngri verði að kalla eftir honum. Önnur er að börn fari með kosningarétt barna fram til sex ára aldurs, megi fara með börnum sínum inn í kjörklefann til tólf ára aldurs en kjósi eftir það alltaf án aðstoðar. Og svo aðrar útgáfur sem eru einhvers staðar þarna á milli.
Það má heyra og sjá viðtalið við Ólaf Karl í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga