Bjarni Benediktsson hefur lýst því yfir að hann muni hætta í stjórnmálum ef hann hann nær ekki kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum um helgina. Það myndi þá líklega leysa ráðherravandræði Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson gæti þá haldið áfram í dómsmálaráðuneytinu.
Jón er annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi og ætti skýlausa kröfu um ráðherrastól ef Bjarni segir af sér. Það er óhugsandi að Sjálfstæðisflokkurinn sé með fimm ráðherra og engan úr þessu kjördæmi, sem er í dag höfuðvígi flokksins.
Þá gæti Guðrún Hafsteinsdóttir komið inn í ríkisstjórn án þess að bola Jóni út. Guðrún myndi þá taka við orkumálaráðuneytinu með umhverfismál sem aukafag. Og Guðlaugur Þór Þórðarson myndi þá taka við fjármálaráðuneytinu af Bjarna.
Og í stað Bjarna á þingi kæmi inn á þing Arnar Þór Jónsson héraðsdómari og fimmti maður á lista xD í suðvestri. Og myndi hafa nokkra sérstöðu í þingflokknum, en Arnar leggur áherslu á nokkuð önnur mál og sjónarmið en sá hópur sem farið hefur með flest völd í tíð Bjarna sem formanns.
Þetta er ekki spá um fall Bjarna, aðeins ábending að fall hans myndi leysa margan vanda sem rekja má til persónulegs metnaðar margra í flokknum.
Á myndinni eru frá vinstri: Jón, Arnar og Guðrún, sem öll hafa vissan hag af því að Bjarni falli.