Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með 1.010 atkvæðum eða 59% gildum atkvæða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Þetta er ívið meiri stuðningur en 2011 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram á móti Bjarna. Þá fékk Bjarni 55% atkvæða .
Þetta er í sjöunda sinn sem Bjarni er í formannskjöri. Hann bauð sig fyrst fram í mars 2009 ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni eftir að Geir H. Haarde hafði tilkynnt að hann sæktist ekki eftir áframhaldandi formennsku eftir fimm ára setu. Bjarni fékk þarna 990 atkvæða, sem voru þá 58%. Þennan marsmánuð mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 27 prósent í þjóðarpúlsi Gallup.
Fjórum sinnum mótframboð, tvisvar einn í kjöri
Í júní ári síðar var auka landsfundur Sjálfstæðisflokksins eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér sem varaformaður. Kjósa þurfti nýjan varaformann, en Bjarni vildi sækja aukið umboð til flokksins og setti formannskjör á dagskrá fundarins. Allt stefndi í að Bjarni yrði einn í kjöri en þá bauð Pétur Blöndal heitinn bauð sig fram með dags fyrirvara og fékk 30% atkvæða á móti 62% atkvæðum Bjarna, sem fékk 573 atkvæði. Þennan mánuð mældi Gallup fylgi Sjálfstæðisflokksins í 33%.
Ári síðar var hefðbundinn landsfundur í mars og þá var harður formannsslagur. Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram gegn Bjarna og fékk 45% atkvæða en Bjarni 55%, 727 atkvæði. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var þarna 36% hjá Gallup.
Séra Halldór Gunnarsson bauð sig fram á móti Bjarna á landsfundi í febrúar 2013 og fékk innan við 2% atkvæða. Hanna Birna, sem ekki hafði boðið sig fram, fékk hins vegar 19%. Bjarni fékk þarna sína bestu kosningu í þau skipti sem hann hefur fengið formlegt mótframboð, 79% atkvæða sem þá voru 939 atkvæði. Þarna var Sjálfstæðisflokkurinn með 30% í könnun Gallup.
Á landsfundinum 2015 var Bjarni einn í kjöri og fékk 753 atkvæði, 96% gildra atkvæða. Þetta var í október og fylgi Sjálfstæðisflokksins 25% samkvæmt Gallup.
Á landsfundinum 2018 var Bjarni aftur einn í kjöri og fékk 710 atkvæði, sem var aftur 96% gildra atkvæða. Þetta var í mars og fylgi flokksins 25% samkvæmt Gallup.
Í kosningunni í dag fékk Bjarni fleiri atkvæði en hann hefur áður fengið, 1010 sem gerðu rúm 59%. Nú mælir Gallup fylgi Sjálfstæðisflokksins í 24% atkvæða.
Stefnir í sögulega langa formannstíð
Bjarni hefur verið formaður í þrettán og hálft ár. Davíð Oddsson var formaður í rúm fjórtán og hálft ár. Bjarni mun hafa setið lengur en Davíð sem formaður ef hann heldur embættinu til 5. nóvember á næsta ári.
Ef Bjarni vill slá út Ólaf Thors og verða þaulsetnasti formaður Sjálfstæðisflokksins frá upphafi þarf hann að sitja fram að páskum 2036. Bjarni verður þá 66 ára og enn ekki kominn á eftirlaun.
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins eiga að vera haldnir annað hvert ár. Landsfundinum 2017 var frestað til 2018 vegna kosninga og svo féll niður fundur 2020 vegna cóvid. Ef ríkisstjórnin heldur velli verður næst kosið 2025, líklega í september en mögulega um vorið. Reikna má því með landsfundi annað hvort snemma árs 2025 eða um vorið ef kosið verður að hausti. Það er ólíklegt að haldinn veði landsfundur fyrir þann tíma.
Bjarni mun því líklega verða formaður í sextán ár hið minnsta. Það er langur tími á allan mælikvarða, nema Ólafs Thors og samtíðarmanna hans.
Hermann Jónasson var formaður Framsóknar í 18 ár en Steingrímur Hermannsson í 15, Halldór Ásgrímsson í 12 ár, Ólafur Jóhannesson í 11 ár en aðrir skemur. Jón Baldvinsson var formaður Alþýðuflokksins í 22 ár en Stefán Jóhann Stefánsson í 14 ár, Jón Baldvin Hannibalsson í 12 ár, Emil Jónsson í 10 ár en aðrir skemur. Í Alþýðubandalaginu sat enginn lengur sem formaður en Bjarni hefur þegar setið; Hannibal Valdimarsson var formaður í 10 ár, Ragnar Arnalds í 9 ár, Ólafur Ragnar Grímsson í 8 ár og aðrir skemur. Fram að stofnun Alþýðubandalagsins hafði Einar Olgeirsson verið formaður Sósíalistaflokksins í 17 ár.
Sjálfstæðismenn skutu Bjarna því í einskonar lávarðadeild íslenskra stjórnmála í dag, á stað sem aðeins stórkanónur fyrri hluta síðari aldar hafa heimsótt: Ólafur Thors, Jón Baldvinsson, Einar Olgeirsson og Hermann Jónasson, menn sem fæddir voru 68-88 árum á undan Bjarna.
Þetta kemur kannski samtímamönnum Bjarna spánskt fyrir sjónir, að formaður sem á fjóra af fimm verstu útkomum í þingkosningum Sjálfstæðisflokksins skuli verma þannan stað. En það eru ekki samtímamenn Bjarna sem kusu hann heldur landsfundafulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru í nokkrum meirihluta ánægðir með Bjarna sinn.
Minni stemming fyrir ritarakjöri
Kjósa þurfi tvisvar um ritara þar sem enginn frambjóðenda fór yfir 50% í fyrri umferð. Vilhjálmur Árnason fékk þá 606 atkvæði eða 43,4%, Bryndís Haraldsdóttir 505 atkvæði eða 36,2% og Helgi Áss Grétarsson 267 atkvæði eða 19,1%.
Í seinni umferðinni var kosið á milli Vilhjálms og Bryndísar og þá fengu þau bæði færri atkvæði en í fyrri umferðinni. Vilhjálmur 538 atkvæði eða 68 atkvæðum færra en í fyrri umferð og Bryndís 385, eða 120 færri atkvæði en í fyrri umferðinni.
Lengi fram að þingi var talið að helsta spenna landsfundarins yrði um kosningu ritara. Svo varð ekki, hún hvarf í skuggann fyrir formannskjörinu. Vilhjálmur var kjörinn með 58% atkvæða í seinni umferðinni, atkvæðum sem þó voru aðeins 39% af gildum atkvæðum sem féllu í fyrri umferðinni.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var kjörin varaformaður með 1.224 atkvæðum sem er 88% gildra atkvæða, 167 kusu aðra flokksmenn og 50 atkvæði voru auð eða ógild.
Þegar Þórdís Kolbrún var kjörin fyrst fyrir fjórum árum fékk hún 96% atkvæða. Það birtist því viss andstaða við hana í varaformannskjörinu í dag þótt hún væri ein í kjöri.
Myndin er frá Sjálfstæðisflokknum.