Þótt bæði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Birgir Ármannsson forseti Alþingis hafi nefnt þau rök fyrir fjölgun kjördæma að það myndi færa þingmenn nær kjósendum, þá stenst það ekki skoðun. Miðað við töllögu þeirra myndi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fjölga á kostnað annarra flokka og flokkum líklega fækka þegar fram í sækir. Og þar með auka líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn geti myndað tveggja flokka stjórn.
Tillögur Birgis síðustu vikur enduróma það sem Bjarni hefur lagt til undanfarin ár. Bjarni hefur kvartað yfir fjölda flokka á þingi og lagt til fleiri kjördæmi með færri þingmönnum. Bæði Bjarni og Birgir nefna að núverandi kjördæmakerfi hafi ekki reynst vel, kjördæmin séu of stór og dragi úr tengslum þingmanna og kjósenda.
Núverandi kerfi er hugverk xD
Núverandi kerfi var komið á að tillögu Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins eftir að Sverrir Hermannsson, fyrrum þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, stofnaði Frjálslynda flokkinn og mótaði stefnu hans fyrst og fremst í kringum andstöðu við kvótakerfið. Markmið breytinga Davíðs var að draga úr möguleikum nýrra flokka, annars vegar með því að gera erfiðara fyrir flokka með staðbundið fylgi að ná í gegn og hins vegar að setja þröskuld á úthlutun þingsæta.
Í kosningunum sem fylgdu kom í ljós hvernig Frjálslyndi flokkurinn náði árangri innan gamla kerfisins sem ekki hefði tekist innan hins nýja. Stefnan í kvótamálum og persónufylgi Guðjóns A. Kristjánssonar í Vestfjarðarkjördæmi tryggði flokknum 17,7% atkvæða og kjördæmakjörinn mann þar vestra og þá Sverri sem uppbótarmann í Reykjavík, en flokkurinn fékk 4,2% atkvæða á landinu öllu.
Til að varna svona hættu vildi Davíð stækka kjördæmin svo að mikið staðbundið fylgi í einum landshluta gæti ekki tryggt nýjum flokkum kjördæmakjörna þingmenn. Og setja mörk á útdeilingu uppbótarmanna við 5% atkvæða á landsvísu. Og til að girða fyrir að flokkar með gott fylgi í Reykjavík næðu inn kjördæmakjörnum manni var borgin klofin í tvö minni kjördæmi.
Davíð náði þessu í gegn fyrir kosningarnar 1999 en það þurfti að samþykkja breytingar á stjórnarskrá á nýju þingi. Það var því ekki kosið eftir kerfi Davíðs fyrr en 2003. En markmið Davíðs og Sjálfstæðisflokksins var alltaf að koma í veg fyrir fyrirbrigði eins og Frjálslynda flokkinn.
Sem oft áður átu aðrir flokkar fóðrið úr lófa Sjálfstæðisflokksins og samþykktu að festa þetta kerfi Davíðs í stjórnarskrá. Að launum fyrir fylgispektina voru laun flokksformanna stjórnarandstöðuflokka hækkuð og þeim skaffaðir aðstoðarmenn launaðir úr ríkissjóði.
Davíð vissi ekki hvað hann gjörði
Þar sem Davíð útbjó kosningakerfið, sem við sitjum enn uppi með, fyrst og fremst sem varnarvegg gegn Sverri Hermannssyni sá hann ekki fyrir afleiðingar af þessum breytingum. Þannig er að um alla heim gildir það að fjöldi þingmanna í kjördæmum ræður fjölda flokka. Í löndum með einmenningskjördæmi er tveggja flokka kerfi í einhverjum útgáfum. Þar sem landið er eitt kjördæmi eða kjördæmin mjög stór og með mörgum þingmönnum eru flokkarnir margir.
Í Hollandi eru 150 þingmenn kjörnir af einum lista og þar eru 17 flokkar á þingi. Í Færeyjum er landið eitt kjördæmi og 33 þingmenn kjörnir af einum lista. Þar eru sex þingflokkar, voru sjö þar til í kosningunum í desember. Í Ísrael eru 120 þingmenn kjörnir af einum lista og tíu flokkar á þingi, voru þrettán fyrir kosningarnar í nóvember. Í Brasilíu eru kjördæmin með allt að 70 þingmönnum og þar eru 23 flokkar á þingi, voru 26 fyrir kosningarnar í haust.
Á Norðurlöndunum er líkt kerfi og hér nema hvað þröskuldurinn til útdeilingar uppbótarþingmanna er ekki eins hár og hér, frá 2% í Danmörku upp í 4% í Svíþjóð. Og engum dettur í hug að kljúfa höfuðborgir í tvo kjördæmi svo það eru fleiri þingmenn í stærstu kjördæmunum en hér. Það eru 8 þingflokkar í Svíþjóð, 10 í Noregi og 12 í Danmörku.
Með breytingum Davíðs var opnað fyrir fjölgun flokka. Kerfið frá 1959 hafði þróast í fjórflokkinn plús einn flokk, jafnvel tvo. En breytingin 1999 opnaði fyrir fleiri flokka. Þingflokkarnir urðu sex árið 2013, sjö árið 2016 og átta 2017.
Með fleiri þingmönnum í kjördæmum opnaðist stærri möguleiki fyrir flokka til að ná inn á þing þótt breytingin hafi verið ætlað til að draga úr þeirri hættu. Kosningakerfið bjó auðvitað ekki til nýjar flokka, en þegar Hrunið og eftirleikur þess kippti fótunum undan fjórflokknum skapaði fjöldi þingmanna í kjördæmum rými fyrir aðra flokka jafnvel þótt aðrir þættir kerfisins væri einmitt ætlað að koma í veg fyrir nýja flokka, einkum hinn hái þröskuldur.
Fyrsti þingmaður Hvarfa og Kóra
Birgir Ármannsson nefndi þrjá kosti fyrir helgina: Tíu kjördæmi með 5 þingmönnum, tólf kjördæmi með 4 þingmönnum eða fimmtán kjördæmi með 3 þingmönnum. Og síðan uppbótarmenn til að tryggja jöfnun milli flokka.
Birgir nefndi ekki fjölda uppbótarmanna en ætla má að hann miði við uppbótarþingmenn úr kjördæmunum fremur en að þeir séu valdir af sérstökum landslista, eins og sums staðar þekkist.
Í öllum tilfellum væri þetta þá 60 þingmenn í það heila, ef reiknað er með einum uppbótarþingmanni í hvert kjördæmi. Ef Kraginn og Reykjavík verður skipt upp í mun smærri kjördæmi eru lítil rök fyrir að hafa fleiri uppbótarmenn þar en í landsbyggðarkjördæmunum.
Ef við tökum dæmi af flestum kjördæmunum til að kanna hvort breytingin færi þingmenn nær kjósendum (eða öfugt) er ekki að sjá að svo verði. Suðurnes yrðu reyndar eitt kjördæmi og svæðið vestan megin Þjórsár annað að Vestmannaeyjum meðtöldum. Við Þjórsá tæki við annað kjördæmi sem næði austur um, upp eftir Austurlandi og síðan allt að Eyjafirði. Þar mætti hafa eitt kjördæmi frá Akureyri að Siglufirði. Þá tæki við annað landflæmis kjördæmi frá Skagafirði. vestur að Vestfjörðum og suður í Borgarfjörð, allt að Akranesi. Frá Akranesi að Hafnarfriði yrðu síðan tíu kjördæmi sem myndi sundurskera sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
Þrír þingmenn plús uppbótarmaður Vesturbæjar og Seltjarnarnes yrðu mögulega tengdari sínu kjördæmi en það ætti varla við um þingmenn kjördæmis sem næði frá Þjórsá að Eyjafirði. Þingmenn Akureyrar, Dalvíkur og Fjallabyggðar fengju skýrara kjördæmi en kjördæmi þingmanna kjördæmis frá Skagafirði að Borgarfirði væri ekkert eðlilegra en Norðvesturkjördæmi er í dag.
Breytingin yrði því mest sú að til yrðu þingmenn Breiðholts svo dæmi sé tekið, Miðbæjar og Hlíðar eða Hvarfa og Kóra, en landsbyggðirnar sætu áfram uppi með víðáttumikil kjördæmi með ólíka byggðahagsmuni.
Á klukkutíma hringnum kringum höfuðborgina yrði 12 kjördæmi. Síðan yrðu 3 kjördæmi frá Þjórsá austur og norður fyrir að Borgarfirði. Ef markmiðið væri að leysa þann vanda sem stóru kjördæmin frá 1999 bjuggu til þá leysir þessi tillaga þann vanda ekki.
Smærri kjördæmi geta opnað fyrir byggðastjórnmál
Það sem tillagan leysir, eða frestar mögulega, er minnkandi vægi Sjálfstæðisflokksins. Ef við höldum okkur við tillöguna um 15 þriggja þingmanna kjördæmi plús uppbótarmann, þá myndi slíkt líklega færa Sjálfstæðisflokknum auka þingmenn til skamms tíma og fækka flokkum, og þar með mögulega stækka Sjálfstæðisflokkinn, til lengri tíma.
Eins og bent var á hér að ofan er samhengi milli fjölda þingmanna í kjördæmi og fjölda flokka á þingi. Það þarf lægra hlutfall atkvæða til að ná kjördæmakjörnum manni í kjördæmum þar sem eru margir þingmenn. Og hærra hlutfall ef þingmenn eru færri. Fjölgun kjördæma og fækkun þingmanna innan hvers þeirra ætti að leiða til samþjöppunar flokka, draga úr klofningi og fækka flokkum.
Nema að fjölgun kjördæma ýti undir svæðisbundin stjórnmál. Á Írlandi eru kjördæmin 3-5 þingmanna en þar eru samt tíu þingflokkar og mikill fjöldi óháðra þingmanna. Í þriggja manna kjördæmi með einum uppbótarmanni er nóg að bjóða fram átta manna lista. En ný kjördæmi samkvæmt kerfi þeirra Bjarna og Birgis verða fyrst og fremst til innan höfuðborgarsvæðisins, þar sem erfitt er að sjá ræktarsvæði fyrir sérstök byggðastjórnmál.
Nýtt kerfi tryggir völd Sjálfstæðisflokksins
En til skemmri tíma ættu áhrifin að verða sú að kjósendur færa sig frá flokkum sem ekki hafa möguleika á kjördæmakjörnum mönnum til flokka sem eru líklegri til að ná kjöri í kjördæminu. Atkvæði greitt öðrum flokkum geta skilað þingmönnum en allt eins í allt öðru hverfi eða á allt öðrum stað á landinu.
Ef við brjótum upp úrslit kosninganna frá 2021 niður á kerfi fimmtán 3 manna kjördæma með einum uppbótarmanni yrði þingheimur svona (innan sviga breyting frá kosningunum 2021):
Sjálfstæðisflokkur: 20 þingmenn (+4)
Framsóknarflokkur: 13 þingmenn (óbreytt)
Vg: 7 þingmenn (-1)
Samfylkingin: 5 þingmenn (-1)
Flokkur fólksins: 5 þingmenn (-1)
Píratar: 4 þingmenn (+2)
Viðreisn: 4 þingmenn (-1)
Miðflokkurinn: 2 þingmenn (-1)
Við gerum ráð fyrir að þeir Bjarni og Birgir vilji halda í 5% þröskuldinn svo Sósíalistar fengju ekki þingmenn, en tvo ef þessi þröskuldur yrði felldur niður eða lækkaður í takt við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Og hér er gert ráð fyrir að þingmenn fækki niður í sextíu þar sem lítil rök eru fyrir að sum kjördæmi hafi tvo uppbótarmenn en önnur ekki.
Þið sjáið að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru þarna með 33 þingmenn af sextíu, meirihluta þingheims og þurfa ekki aðra flokka í ríkisstjórn. Og líklega er það markmið þeirra félaga; að búa til kosningakerfi sem ýkir stöðu Sjálfstæðisflokksins og tryggir honum möguleika á að mynda tveggja flokka stjórnir, stundum með Framsókn en stundum með krötum, eins og hann gerði á seinni hluta síðustu aldar og fram að Hruni.
Til að ná þessu í gegn þarf að breyta stjórnarskrá. Og fá þá breytingu samþykkta fyrir og eftir kosningar með gamla laginu. Það er kannski ekki líklegt, en Sjálfstæðisflokknum hefur áður tekist að fá aðra flokka til að samþykkja breytingar á kosningakerfinu sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að þjóna hagsmunum Sjálfstæðisflokksins.
Það má því vera að tillaga Bjarna og Birgis sé lögð fram til að rugla málin, draga athygli frá því að núverandi kerfi tryggir ekki jafnræði milli flokka. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa fengið þingmenn í kosningum umfram fylgi sitt og á kostnað annara flokka. Þetta má laga innan núverandi kosningakerfis án þess að breyta stjórnarskrá. Einfaldast er að fækka kjördæmakjörnum mönnum um einn í hverju kjördæmi og breyta þeim í uppbótarþingmenn.