Ögmundur Jónasson, fyrrum formaður BSRB, sagðist við Rauða borðið fullviss um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara yrði dæmd ólögmæt. Hún reyndi ekki bara á ystu mörk túlkana á lögunum heldur færi út fyrir þau. En ef þessi tillaga fengi að standa væru það vatnaskil á íslenskum vinnumarkaði og draumur fyrirtækjaeigenda um vinnumarkaðslíkan með ríkissáttasemjara með lögregluvaldi væri orðin staðreynd.
Ögmundur sagði það augljóst af lestri laga um stéttarfélög og vinnudeilur að miðlunartillaga ríkissáttasemjara standist ekki þau lög. Sáttasemjari hafi ekki ráðfært sig við deiluaðila eins og tilgreint væri sem ein af forsendum þess að hann legði fram miðlunartillögu. Alla vega ráðfærði hann sig ekki við Eflingu. Og tillagan er ekki lögð fram þegar deiluaðilar höfðu náð að þrýsta á um kröfur sínar, eins og kveðið er á um, heldur beint ofan í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun.
Ögmundur lýsti áratuga baráttu fyrirtækjaeigenda fyrir að koma hér á kerfi líku og er á Norðurlöndum. Þar hefur verkalýðshreyfingin verið stofnanavædd og þar móta sérfræðingar stefnuna en ekki almennir félagsmenn. Þetta var reynt með breytingum á vinnulöggjöfinni 1996.
Í bók Ögmundar, Rauða þræðinum, er fjallað um þessar deilur, t.d. á blaðsíðu 154:
„Þriðja lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar frá árinu 1996, sem áður er um getið, var frumvarp um stéttarfélög og vinnudeilur. Nefni ég það hér því það var sömu gerðar og nokkur slík á þessum árum og framan af 21. öldinni, sem hvert á sinn hátt miðaði að því að skerða réttindi launafólks og stíga skref í þá átt að miðstýra kjarasamningum með lögþvinguðu viðræðuferli. Þetta frumvarp átti því vel heima í spyrðu með frumvarpi um skert réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og frumvarpi um skerðingu á lífeyrisrétti þeirra.
Í ályktun framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambandsins, VSÍ, skömmu áður en frumvarpið um stéttarfélög og vinnudeilur kom fram segir: ,,Loks kann að vera tímabært að kveða skýrt á um rétt starfsmanna einstakra fyrirtækja og stjórnenda þeirra til að semja sjálfir um kaup og kjör án milligöngu samtaka atvinnurekenda og launþega. Einkaréttur stéttarfélaga til gerðar kjarasamninga verði þannig takmarkaður.“
Þarna birtist Thatcherisminn skýr og tær. Ekki gekk frumvarp ríkisstjórnarinnar þó eins langt og atvinnurekendur helst hefðu viljað samkvæmt þessari ályktun en fingraför þeirra voru engu að síður greinileg. Allt var þetta útbúið með miklum glassúr. Þannig var sagt að frumvarpinu um stéttarfélög og vinnudeilur væri ætlað að lýðræðisvæða verkalýðsbaráttuna. Rétt var það að nú skyldi tryggt að kosið væri um verkföll í almennri kosningu allra félagsmanna. En þar með voru Dagsbrúnarfundirnir, fjöldafundir, iðulega í troðfullu Austurbæjarbíói, sem veittu forystunni heimild til verkfallsboðunar úr sögunni. Sveitt spennan, baráttuskjálftinn á rafmögnuðum fundum, var eitur í beinum atvinnurekenda enda beindust þessir fundir gegn þeim, þeirra óbilgirni. Því þurfti lög á þá.
Þessu var harkalega mótmælt, svo harkalega að við framkvæmd laganna voru stjórnvöld og atvinnurekendur feimnari en ella hefði orðið við að framfylgja þeim til hins ítrasta. Þannig getur barátta skilað sér – ekki alltaf í svarthvítum niðurstöðum.“
Með lögunum 1996 var vald ríkissáttasemjara aukið, en ekki eins mikið og að var stefnt. En með SALEK, sem er skammstöfun fyrir SAmstarf um Launaupplýsingar og Efnahagsforsendur Kjarasamninga, var aftur reynt að auka völd ríkissáttasemjara.
Í SALEK var gert ráð fyrir að leiðandi samningsaðilar geri kjarasamninga innan marka efnahagslegs svigrúms og með hliðsjón af samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Aðrir kjarahópar, smáir sem stórir, skuldbindi sig síðan til að vinna innan þessa efnahagslega svigrúms. Síðan áttu fastlaunahópum, þ.e. opinberir starfsmenn, að vera tryggð jafnstaða á við markaðslaunahópa með tengingu við launaskrið á vinnumarkaði. Og svo átti að efla embætti ríkissáttasemjara og skerpa á efnahagslegri ábyrgð þess við úrlausn kjaradeilna.
Það átti sem sagt að fela ríkissáttasemjara völd til að halda öllum launahækkunum innan þeirra marka sem samningar leiðandi aðila mörkuðu.
ASÍ skrifaði undir yfirlýsingu um SALEK 2015 en hefur síðan fallið frá því, ný forysta hafnaði SALEK. En svo virðist sem ríkissáttasemjari sé að beita sér eins og hann hafi þetta vald sem SALEK gerði ráð fyrir að hann fengi, að hann gæti þröngvað samningum Starfsgreinasambandsins upp á alla aðra á vinnumarkaði. Og kallað á lögregluna sér til aðstoðar.
Ögmundur sagðist ekki trúa því að þetta stæðist, miðlunartillagan hlyti að vera dæmd ólögleg.
Heyra má og sjá viðtalið við Ögmund í spilarnum hér að ofan.