Á tímabili kórónafaraldursins stærði ríkisstjórnin sig af auknu trausti á Alþingi. Þegar ríkisstjórnin var mynduð snemmvetrar 2017 var þess getið í stjórnarsáttmála að byggja ætti upp traust á Alþingi. Í nýrri könnun Gallup kemur fram að þetta hefur á engan hátt tekist. Traustið á Alþingi er nú minna en þegar ríkisstjórnin var mynduð.
Snemma árs 2017 mældust traust á Alþingi 22%. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var þá nýmynduð eftir þó nokkra stjórnarkreppu í kjölfar þess að ríkisstjórn Bjarna og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar leystist upp í Panamahneykslinu. Það hneyksli var ekki meginástæðan fyrir litlu trausti á þinginu, það hafði mælst 17% stuttu áður en það varð opinbert.
Snemma það örlagaríka ár 2008 mældust traust landsmanna á Alþingi 42%. Það er lágt á norrænan mælikvarða þar sem þjóðþingin hafa notið um og yfir 60% trausts almennings. Við Hrunið hrundi traustið mikið, mældist aðeins 13% í febrúar 2009 þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde var að falla og minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að taka við. Líklega töldu margir þetta botninn, að það væri eiginlega ekki hægt að ímynda sér ástand í lýðræðisþjóðfélagi þar sem almenningur ber minna traust til löggjafarþingsins.
En þetta skánaði ekki. Í febrúar 2010 var traustið enn aðeins 13%. Svo féll það niður í 11% árið eftir og svo niður í 10% ó febrúar 2012. Meðan að ríkisstjórn og þing taldi sig vera að endurreisa efnahagskerfið eftir Hrun var traust á þessum aðilum við frostmark.
Staðan skánaði aðeins í aðdraganda kosninga 2013. Í febrúar það ár var traustið komið í 15%. Og batinn hélt áfram undir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna, fór í 24% árið eftir en dunkaði svo aftur niður í 18% 2015. Þá hafði grafist undan ríkisstjórninni. Það var ákveðinn vendipunktur þegar stjórnin dró til baka aðildarumsókn til Evrópusambandsins árið áður. Og enn minnkaði traustið. 2016, stuttu fyrir Panamaskjölin, var það komið niður í 17%.
Eins og áður sagði mældist traust á Alþingi 22% snemma árs 2017. Fram undan voru hneyksli, það sem snerist um uppreist æru barnaníðinga sprengdi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var svo mynduð í lok nóvember það ár. Og í febrúar 2018 mældist traust á Alþingi 29%. Ef við tökum bil þessara tveggja mælinga, þar sem tíu mánuðir tilheyra tíma ríkisstjórnar Bjarna og tveir ríkisstjórnar Katrínar er upphagspunktur ríkisstjórnar Katrínar um 25%.
Í mælingunni í febrúar 2019 hafði traustið fallið aftur niður, mældist 18%. Og ári seinna, um það bil sem cóvid-faraldurinn náði til Íslands, lyftist traustið upp í 23%.
Svo kom cóvid og traustið mældist 34% í febrúar 2021 og 36% í febrúar 2022. Sömu þróun mátti sjá í flestum öðrum löndum. Traust á stjórnvöldum og stofnunum samfélagsins styrktist í cóvid.
Og svo fór cóvid og þá féll traust á Alþingi aftur, mældist 25% fyrr í mánuðinum. Nánast á sama stað og það var áður en þessi ríkisstjórn tók við.
Í kosningunum 2017 fékk Framsóknarflokkurinn 10,7% atkvæða. Í nýjustu Gallup-könnun mældist hann með 11,3%. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,2% atkvæða en mælist nú með 23,5% fylgi. Samanlagt fylgi þessara tveggja flokka var 35,9% í kosningum og mælist nú 34,8%, svo til það sama. Breytingin er hjá Vg sem fékk 16,9% atkvæða en mældist með 6,8% í nýjustu könnun Gallup. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkana hefur fallið úr 52,8% í 41,6%. Það getur því orðið erfitt fyrir flokka með svo lítinn stuðning að snúa við vantrausti á grunnstofnunum lýðræðisins.