Smámenni sem hlægja með Davíð

Davíð Oddsson

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segir í pistli sem hún birtir á vef sínum að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi náð nýjum botn með skrifum sínum um transfólk á dögunum. Í leiðara blaðsins gaf hann í skyn fall Silicon Valley bankans væri transfólki að kenna. Skrif Davíðs má lesa í heild sinni hér, en óhætt er að segja að leiðarinn sé nánast óskiljanlegur. 

Hér fyrir neðan má lesa pistil Helgu Völu í heild sinni.

Ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum seðlabankastjóri ryðst fram á ritvöllinn í leiðara blaðsins fyrir helgi og skýrir fyrir lesendum sínum hvað að hans mati varð Silicon Valley bankanum að falli á dögunum. Einhver hefði talið að fyrrum seðlabankastjóri, sem hefur góða reynslu af því að fara illa að ráði sínu við stjórn banka, hefði lært sitt og hvað á löngum ferli sínum en nei, leita skyldi sökudólga þar sem síst skyldi.

Af lestri leiðarans virðist ritstjórinn fastur í gamalli heimsmynd, og væri það svo sem í lagi ef ekki væri um að ræða ritstjóra fjölmiðils sem eitt sinn naut nokkurrar virðingar hér á landi. Enn er það fólk sem telur leiðara fjölmiðils vera einhverskonar stefnuyfirlýsingu fjölmiðilsins og þess vegna má segja að það sé nokkuð alvarlegt þegar meiðandi orð gagnvart minnihlutahópum fá að flæða þar um. Ritstjórinn virðist telja að veröldin sé óbreytt frá því hann steig á jörðina, fyrir margt löngu, og að hans heimssýn sé hin rétta óháð veröldinni sem einmitt er breytingum háð. Þannig virðist ritstjórinn telja sóma að því að ráðast á minnihlutahóp trans fólks og kenna honum um fall bankans í Kísildalnum.

Lægra verður varla lagst í tilrauninni til að vekja athygli smámennanna, viðhlægjenda ritstjórans. Það að fyrirtæki velji sér nútíma stefnuhætti og viðurkenni það sem alkunna er er hvorki óeðlilegt né skaðlegt heldur ákjósanleg framvinda í fyrirtæki sem vill lifa og njóta trausts samfélagsins. Þannig er það partur af þeirri veröld sem við lifum í, við sem ekki erum föst í skýjakljúfi fortíðar ritstjórans. Eitt sinn bjó fólk í felum árum saman fyrir það eitt að fella hugi til annarra en þeirra sem samfélaginu þótti við hæfi. Einu sinni var það svo að konum sem áttu börn utan hjúskapar var drekkt á Þingvöllum fyrir hórdóm. Einu sinni var það svo að hinsegin fólk á Íslandi flúði land vegna ofsókna þeirra sem taldi það á einhvern hátt skaðlegt samfélaginu en ekki lengur. Sem betur fer.

En í dag þykir það í lagi í ákveðnum klíkum að valdastéttir virði sínar saurugu hugsanir vitandi að þær munu meiða fjölda fólks sem hafa ekkert til sakar unnið, mögulega varanlega með óafturkræfum afleiðingum. Í dag þykir skautunarmenning valdhafa smart í ákveðnum hópum. Einhver rekja það til fyrrum forseta Bandaríkjanna sem lét það aldrei trufla sína meiðandi umræðu þótt hann hafi verið þess fullmeðvitaður að með orðum sínum væri hann að auka vanda samfélagsins og skaða verulega minnihlutahópa sem sættu ofsóknum af hans hálfu. Hér á landi hafa menn eins og ritstjórinn fengið stjórnlausa útrás fyrir andúð sína á nútímanum, á síðum Morgunblaðsins sem eitt sinn þótti sómakær fjölmiðill. Það er miður því mikilvægi vandaðra fjölmiðla hefur sjaldan verið meiri.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí