Hættir sem formaður ef hún kemst ekki í ríkisstjórn

„Ég myndi hætta sem formaður. Samfylkingin er á þannig tímamótum að hún þarf að komast í ríkisstjórn. Mitt verkefni, þegar ég tók við flokknum, var að gera hann stjórntækan. Ef mér tekst ekki að gera það þá hef ég brugðist. Ég tók þetta starf að mér til að leiða Samfylkinguna inn í ríkisstjórn og í forystu við stjórn landsins. Ég mun standa og falla með því,“ segir Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Mogga dagsins.

Viðtalið snýst mest um ríkisstjórnarsamstarf eftir næstu kosningar, sem Kristrún reiknar með og vonar að verði 2025. Hún segist ekki vilja að ríkisstjórnin springi. „Ég vil ekki komast í ríkisstjórn vegna þess að allt hafi sprungið í loft upp hjá núverandi ríkisstjórn með tilheyrandi óreiðu og reiði,“ segir hún í viðtalinu.

Það vekur athygli að Kristrún notar hugtakið stjórntækur, en það er hugtak sem Davíð Oddsson notaði um flokka sem hann taldi hæfa til að ganga í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Og sem fyrr neitar Kristrún að hafna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, eins og Logi Einarsson forveri hennar gerði.

„Ég hef ekki viljað fara þá leið að útiloka flokka og fyrir því er einföld ástæða. Ég vil að fólk kjósi Samfylkinguna út af okkur, ekki út af því hvað við erum ekki. Mér finnst stimplar sem felast í því að segja: Við lofum að gera ekki þetta til marks um flokk sem treystir sér ekki til að segja: Þetta eru okkar verkefni, treystið okkur til verka og þið fáið ríkisstjórn sem skilar verkefnum af sér,“ segir Kristrún.

„Ef stefnan sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið undanfarin ár og áratugi verður óbreytt eftir næstu kosningar þá mun það hamla framförum í svo að segja öllum okkar stóru málaflokkum svo mjög að afar erfitt verður að fara í ríkisstjórn með þeim.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði, á einhverjum tímapunkti, örflokkur, þá væri verið að eiga við allt öðruvísi flokk í ríkisstjórn. Hingað til hefur vandinn með Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn verið sá að hann hefur verið forystuflokkur í landsmálum af því hann hefur verið stærsti flokkurinn.

Ég hef sagt við fólk: Hættum að fókusera á Sjálfstæðisflokkinn og það hvort ég ætla að vinna með honum. Komið með mér í það verkefni að gera sósíaldemókratískan flokk á Íslandi að stærsta flokki landsins. Sameinum fólk frá miðju til vinstri og sköpum okkur stöðu þar sem við þurfum ekki á Sjálfstæðisflokknum að halda,“ segir Kristrún.

Hún er líka spurð hvort hún vilji vera í ríkisstjórn með Katrínu Jakobsdóttur og þá líklega líka Vg.

„Ég útiloka það alls ekki,“ svarar Kristrún. „Ég held að við Katrín séum sammála um margt. Hún er í stöðu þar sem hún kemur ákveðnum hlutum ekki í gegn. Ég held að hún væri betur sett með mig í fjármálaráðuneytinu en Bjarna.

Þannig að ég hefði ekkert á móti því að sitja með Katrínu í ríkisstjórn. Í mörgum grunnmálum eru Vinstri-græn og Samfylkingin sammála. Samfylkingin og Vinstri-græn eru þó ólík að því leyti að Samfylkingin hefur sterkar sósíaldemókratískar rætur, er kerfisflokkur í grunninn, þar sem fókuserað er á velferðina og fjármögnun á henni, en þetta eru kjarnamál í daglegu lífi fólks. Á meðan hefur Vinstri-grænum þótt allt í lagi að vera minna í þessum kerfislægu málum en meira í stökum málum.

Vinstri-grænum líður kannski betur í ríkisstjórninni að tala um mjúku málin sem kosta ekki pening en skipta vissulega miklu máli, eins og mannréttindamál. Við styðjum þessi mál en breytingarnar sem þurfa að eiga sér stað í íslensku samfélagi kosta breytingar í fjármálaráðuneytinu og Samfylkingin væri ekki að standa með sjálfri sér sem sósíaldemókratískur flokkur nema hún sæi breytingar þar. Ég væri ekki tilbúin að sætta mig við það sem Katrín hefur sætt sig við.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí