Líf ver flaður Katrínar upp við fasistann: „Beinlínis verið að koma höggi á vinstri græn“

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir andstyggilegt að bendla Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann VG, við fasisma þó að fagnaðarfundir Katrínar og Giorgiu Meloni hafi náðst á mynd. Hún sakar Þór Saari, fyrrverandi þingmann, um að reyna að koma höggi á VG fyrir að birta mynd af þeim tveimur. Meloni er forsætisráðherra Ítalíu, formaður nýfasíska flokksins Bræðralags Ítalíu og yfirlýstur aðdáandi Mussolíni.

Þór birtir myndina, sem sjá má hér fyrir ofan, og skrifar á Facebook: „Fagnaðarfundir Katrínar Jak. og fasistans Giorgia Meloni. Svona er nú komið fyrir „Vinstri-grænum“ og íslenskum forsætisráðherra. Halda ekki vatni yfir því að fá að snerta fasista. Það má rekja Bræðralag Ítalíu beint til fasistaflokks Mussólíní, í gegnum nafnbreytingar og sameiningar. „Svei attann!“ Það er skömm að þessu öllu saman. Leikrit svo yfirstéttin geti nuddað saman lendunum yfir „búbblum“ og undir vökulu auga vélbyssumanna. Það er sorglegt að sjá hvert Ísland er komið.“

Varla er hægt að kalla Meloni annað en hommahatara, enda hefur hún lagt mikla áherslu á stjórnmálaferli sínum að berjast gegn réttindum samkynhneigðra. Raunar er hommahatur og útlendingaandúð helstu baráttumál hennar. Þegar hún var 19 ára lýsti hún því yfir í viðtali við franskan fjölmiðil að einræðisherrann og helsti upphafsmaður fasisma, Benito Mussolíni, hafi verið „góður stjórnmálamaður, enda hafi allt sem hann gerði verið í þágu Ítalíu“.

Aðdáun Meloni á fasisma var þó ekki eitthvað bernskubrek, því fyrir einungis þremur árum barðist hún fyrir því að gata í Verona yrði skírð í höfuðið á Giorgio Almirante. Hann var samstarfsmaður nasista í leppríki þeirra í Norður-Ítalíu undir lok stríðs. Eftir stríð kom hann að stofnun Ítölsku samfélagshreyfingarinnar, nýfasísks stjórnmálaflokks, ásamt öðrum fasistum sem höfðu starfað með Mussolíni. Meloni sagði í maí árið 2020 að Almirante hefði verið „frábær stjórnmálamaður og föðurlandsvinur“.

Líkt og fyrr segir þá er Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, ekki ánægð með að það sé verið að bendla Katrínu Jakobsdóttur við Meloni, þrátt fyrir hve vel þeim kom saman í Hörpunni í gær. Í athugasemd við færslu Þórs skrifar Líf:

„Þú ert einn af mörgum sem ég hef séð á fb með langsóttar líkingar um þessa mynd. Með mjög einbeittri og andstyggilegri framsetningu er beinlínis verið að spyrða Katrínu við fasisma og koma höggi á Vinstri græn sem er hreyfing með fjölbreyttu fólki innanborðs sem starfar af heilum hug með það fyrir augum að bæta samfélagið. Agenda og framsetning skilaboða sem þessa eru augljós fyrir hvern þann sem vill sjá og fyrir mér er þetta ódýr og beinlínis meiðandi áróður frá fólki í tilteknum stjórnmálaflokkum sem þrá aukið fylgi og vilja tæta það af VG. Með svona ómálefnalegum málflutningi af „vinstrivængnum“ og í garð annarra vinstriflokka er verið að tryggja hægrinu völdin um ókomna tíð. Hann er dapurlegur áróðurinn í bönkerum sumra flokka og mjög hatursfullur. Gagnrýni er góð en útúrsnúningar og uppnefni hafa aldrei gefið gott af sér.“

Þór svarar henni fullum hálsi og skrifar: „Það er náttúrulega Katrín sjálf sem er að spyrða sig við fasisma með þessu flaðri upp við Meloni. Það getur verið að það sé erfitt fyrir suma VG-liða að horfa upp á þetta, en þessi mynd er ekki fölsuð. Vissulega gerir stefnuskrá VG ráð fyrir því að bæta skuli samfélagið, en engu að síður fer sá flokkur fyrir ríkisstjórn sem er að valda samfélaginu gríðarlegu tjóni og það á öllum sviðum. Þetta er ekki dapurlegar áróður úr einhverjum bönker heldur staðreynd máls. Leiðtogablætið og kunningjasamfélagið hefur lengi vel verið mesta mein íslenskra stjórnmála og VG-liðar upp til hópa hafa lengi verið illa slegnir af leiðtogablindu, alla vega alveg frá 2009, en kannski bara alla tíð.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí