„Formaður Framsóknarflokksins heldur vikulega blaðamannafundi með nýjum glærukynningum um uppbyggingu í samgöngum marga áratugi fram í tímann sem allir vita að munu ekki ganga fram, því á sama tíma boðar fjármálaráðherrann aðhald í ríkisfjármálum og að mannaflsfrekar framkvæmdir hins opinbera þurfi að bíða,“ skrifar Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum áhrifamaður í Framsóknarflokknum á vef sinn Viljann.
Viljinn hefur legið lengi niðri en Björn Ingi segist vilja ræða ástandið i ríkisstjórninni. „Það er að verða fremur óþægilegt að fylgjast með því hvernig stemningin á stjórnarheimilinu súrnar dag frá degi. Þetta er ekki aðeins upplifun þingmanna í stjórnarandstöðunni; stuðningsmenn flokkanna sem standa að ríkisstjórninni segja hverjum sem heyra vill að stjórnin komi litlu í verk, öll orkan fari í endalausar málamiðlanir og einkaflipp einstakra ráðherra verði æ algengari,“ skrifar Björn Ingi.
„Við þessar aðstæður er ekkert skrítið að almenningur og atvinnulífið velti fyrir sér hvort landið er stjórnlaust. Það er hið minnsta mikið áhyggjuefni fyrir leiðtoga stjórnarflokkanna að sú sé upplifun fólksins í landinu. Alls staðar blasir dýrtíðin við; það er beinlínis allt að hækka og fólk fær miklu minna fyrir peninga sína en áður. Vaxtastig er í hæstu hæðum, verðbólgan ógnarhá og neyðarástand á húsnæðismarkaði og í heilbrigðismálum,“ skrifar Björn Ingi og segir að margir stjórnarþingmenn spái haustkosningum.