„Mikið er nú aumt að fylgjast með viðkvæmu blómunum, riddaraliðssveit miðaldra Sjálfstæðismanna, sem grætur svo fallega á síðum helstu málgagna flokksins,“ skrifar Stefán Pálsson, varaborgarfulltrúi Vg á Facebook. „Margt bendir til að stórir hlutar Sjálfstæðisflokksins séu að verða óstjórntækir með öllu, enda sturlaðir af frekju og hlaupa upp með stjórnarslitahótunum þegar þeir fá ekki allt sem þeir vilja. Sú spurning vaknar hvort þessi armur flokksins sé algjörlega ófær um að vera í stjórnarsamstarfi með flokki sem hann getur ekki vaðið yfir?“
Umræðan um veikleika ríkisstjórnarinnar og óyndi flokksmanna nær því út fyrir hóp ósáttra miðaldra karla í Sjálfstæðisflokknum.
Stefán Einar Stefánsson, eitt sinn formaður VR, undanfarið blaðamaður á Mogga og stuðningsmaður stjórnarslita, svarar nafna sínum með þjósti. „Mikið eru menn, sem setið hafa að kjötkötlunum, orðið hræddir um að partýið sé á enda hjá VG. Ekkert að hafa innan borgarinnar og forsætisráðherrastóllinn orðinn tæpur.“
Og heldur áfram: „Ég heyri engan innan VG tala fyrir stjórnarslitum. Það eru hins vegar allir búnir að fá nóg innan XD. Það hefur enginn lyst á því að bakka upp fólk sem sviptir fólk miskunnarlaust atvinnunni eða lætur það þjást mánuðum saman að þarflausu vegna kreddufestu og haturs í garð einkareksturs.“