„Stóri dagurinn nálgast. 1. september er í lok þessarar viku. Enn er óvíst hvort hvalveiðar hefjist um helgina eða ekki. Að sama skapi er óvíst hvort ríkisstjórnin lifir eða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkur vilja að hvalveiðar verði í haust. Hvað gera Vinstri græn?“
Þetta skrifar Sigurjón Magnús Egilsson á vef sínum Miðjunni, en hann bendir réttilega á að 1. september næstkomandi, á föstudaginn, muni koma í ljós hvort orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að hún sé „til í veturinn“ muni rætast. Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn er harður á því að hvalveiðar skuli ekki banna meðan flokkurinn er í ríkisstjórn. Raunar hafa Sjálfstæðismenn hagað sér eins og stungin grís í allt sumar vegna þessa máls. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa til að mynda ítrekað sagt bannið brot á stjórnarsáttmálanum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur gengið svo langt í viðtölum við Morgunblaðið að segja að flokkurinn sé sérstaklega að fylgjast með öllum gjörðum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Ef hún ákveður að banna enn og aftur hvalveiðar á föstudaginn, og Sjálfstæðisflokkurinn heldur enn áfram samstarfi við VG, þá mun það verða algjör niðurlæging fyrir Sjálfstæðismenn.
Á hinn bóginn væri það enn verri niðurlæging fyrir Vinstri græn ef Svandís ákveður að leyfa hvalveiðar á föstudaginn. Flokkurinn hefur mátt þola mikla niðurlægingu í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn, og má varla við enn einni gusunni. Og það má segja að grasrót flokksins ætlist til þess að Svandís haldi sínu striki.
Flokksráðsfundur Vg var haldinn um helgina á Flúðum og þar var ákvörðun Svandísar sérstaklega fagnað. „Flokksráðsfundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til fram til þessa. Fundurinn áréttar samþykkta stefnu VG um hvalveiðar og að dýravelferðarsjónarmið verði áfram ráðandi í þeirri vinnu sem fram undan er,“ segir í ályktun fundarins.