Engum gögnum er haldið til haga um smithættu Covid-19 innan sjúkrahúsa

Nokkur uppsveifla virðist standa yfir í Covid-smitum hér innanlands eins og víða um heim um þessar mundir, nú síðsumars, eins og fram kom í umfjöllun Samstöðvarinnar á dögunum.

Í umfjöllun Vísis í dag, fimmtudag, kemur fram að veiran SARS 2 og sjúkdómurinn sem hún orsakar valdi enn á ný nokkrum usla innan Landspítalans: „Stutta svarið er að Co­vid heldur á­fram að gera okkur lífið leitt. Veiran er greini­lega bráð­smitandi og fer hratt yfir þegar hún berst inn á annað borð,“ sagði Hildur Helga­dóttir, for­maður far­sótta­nefndar Land­spítala, í svari við fyrirspurn Vísis. Starfsfólk hafi tekið eftir því að hún valdi „heil­miklum veikindum hjá hraustu starfs­fólki í yngri kantinum.“ Ekki þannig að komi til innlagna, sagði hún, „en þau verða ansi lasin og ó­vinnu­fær í nokkra daga.“

Þá kemur fram í svari hennar að sjúkrahúsið haldi ekki lengur bókhald yfir fjölda smita, „en við höfum verið með ca 10-15 á hverjum tíma inni­liggjandi og far­aldur á einum 5-6 legu­deildum“.

Áhætta sjúklinga óþekkt

Það var í ljósi þess að hvorki sjúkrahús né aðrar heilbrigðisstofnanir virðast verja sjúklinga fyrir smiti, svo teljandi sé, sem blaðamaður beindi þeirri spurningu til embættis sóttvarnalæknis á dögunum hvort til væru gögn um hversu margir hefðu smitast og veikst af veirunni innan heilbrigðisstofnana, enda má vænta að meðal þeirra sé hærra hlutfall fólks með undirliggjandi sjúkdóma, sem þar með telst í áhættuhópi, en utan heilbrigðisstofnanna. Spurningin er með öðrum orðum hversu mikla áhættu fólk tekur, þegar það leitar sér lækninga, á að veikjast af Covid-19 til viðbótar við hvað sem hrjáir það fyrir.

Blaðamaður spurði því: Hafa gögn sóttvarnalæknis um Covid-19 greiningar og gögn Landlæknis um dánarorsakir verið keyrð saman til að athuga hversu margir hafa dáið af völdum smita sem þau urðu fyrir innan heilbrigðiskerfisins? Ef ekki, er þá hægt að gera það, til að miðla þeim í þágu sjúklinga?

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir svaraði spurningunni skriflega fyrr í þessari viku. Svarið var svohljóðandi: „Sóttvarnalæknir fær sendar greiningar á Covid-19 sem gerðar eru á rannsóknarstofu (PCR próf). Ekki er hægt fyrir sóttvarnalækni að greina á milli hvaða smit hafa átt sér stað utan eða innan stofnanna og öndunarfærasýkingar almennt hafa ekki verið flokkaðar eftir því hvort eigi sér stað utan eða tengt heilbrigðisþjónustu.“

Með öðrum orðum virðast engum gögnum vera haldið til haga um smithættuna innan sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana.

Vísindamenn beina sjónum að langtímaafleiðingum

Í gær, miðvikudag, tilkynnti WHO að nýtt undirafbrigði veirunnar, sem gefið hefur verið heitið „Eris“, væri þess vert að hafa augun á, en það virðist meðal annars hafa forskot í að komast framhjá fyrra ónæmi.

Vísindamenn beina sjónum í auknum mæli að langtímaáhrifum veirunnar að baki Covid-19, long covid, sem talið er að hrjái um tíu prósent þeirra sem sýkjast. Rannsókn sem birtist á miðvikudag í tímaritinu Science, og Samstöðin fjallaði um fyrr í dag, gefur til kynna að undirliggjandi orsök langtímaveikinda geti verið árásir veirunnar á hvatbera í fjölda líffæra.

Þá birti tímaritið Nature grein í júlí sem segir byrðina sem long covid muni valda sjúklingum, heilbrigðiskerfum og hagkerfum vera svo mikla að hún sé „óhugsandi“. Höfundar greinarinnar tefla því fram sem sennilegustu skýringu á því hversu lítið stjórnvöld aðhafast í málinu til þessa. Bandaríkin tilkynntu í sama mánuði um nýja stofnun sem er ætlað að efla rannsóknir á sviðinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí