Hugmyndalegur og pólitískur bakgrunnur illrar meðferðar á ungabörnum

Börn 13. ágú 2023 Gunnar Smári Egilsson

„Ráðandi aðilar innan heilbrigðiskerfisins og borgarinnar vildu hafa fyrirkomulag á vöggustofunum í óbreyttri mynd. Hæsti þröskuldurinn var tvímælalaust Kristbjörn Tryggvason. Hann virtist eiga sér hauk í horni í Vilmundi Jónssyni, landlækni, sem brást lögboðinni skyldu sinni. Kristbjörn fylgdi Sjálfstæðisflokknum að málum og þegar gagnrýni á starfshættina stóð sem hæst leitaði Geir Hallgrímsson, borgarstjóri, til hans og saman leystu þeir krísuna og málið féll í þagnargildi.“ segir meðal annars í niðurlagi nýrrar greinar Árna H. Kristjánsson sagnfræðings um Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins, en Árni dvaldi þar sem barn.

„Sömuleiðis bar Sjálfstæðisflokkurinn mikla ábyrgð enda hafði hann hreinan meirihluta í borgarstjórn þau 30 ár sem vöggustofur á vegum borgarinnar voru starfræktar. Fjárhagslegir hagsmunir borgaryfirvalda áttu sinn þátt í því hve hörmulega var staðið að málum. Það kemur ekki síst fram í sambandi við ófaglegar og siðlausar ættleiðingar og fósturvistanir vöggustofubarna,“ segir í greininni.

Árni skýrir sterka stöðu Kristbjörns og segir að hann hafi verið nánast einráður þegar kom að heilsuverndarmálum barna og notið mikillar virðingar. „Hann ákvað starfshætti á vöggustofunum, þar sem heilbrögð börn voru meðhöndluð eins og afskiptir sjúklingar, og hélt þeim til streitu. Þrátt fyrir valdastöðu Kristbjörns og góða tengingu við yfirvöld þá hefðu starfshættir aldrei liðist nema með samþykki þeirra. Borgaryfirvöld létu Kristbirni eftir að ákveða starfshætti á vöggustofunum og margt bendir til að orð hans og forstöðukonu hverju sinni hafi verið ígildi lögbundins eftirlits,“ skrifar Árni.

„Vilmundur Jónsson, landlæknir, vissi af skaðseminni árið 1952 í kjölfar þess að þrír sérfræðingar, á vegum embættisins, sóttu ráðstefnu í Noregi um geðvernd barna. Embætti landlæknis var og er eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum og bar því að skilyrðislaust að bregðast við. Sérfræðingarnir, þeir Broddi Jóhannesson, sálfræðingur, Helgi Tómasson, geðlæknir, og Símon Jóh. Ágústsson, sálfræðingur, upplýstu um skaðsemi starfsháttanna þegar eftir heimkomu á vordögum 1952. Símon skrifaði greinina, „Alþjóðleg ráðstefna um geðvernd“, sem birtist í tímaritinu Menntamál vorið 1952, þar sem hann greindi frá ráðstefnunni í Noregi. Af óljósum ástæðum létu þremenningarnir þar við sitja og færa má rök fyrir því að þeir hafi brugðist skyldum sínum,“ skrifar Árni.

„Þegar gagnrýni á starfshætti vöggustofunnar stóð sem hæst árið 1967 lýsti stjórn Thorvaldsensfélagsins yfir hneykslun og vísaði allri ábyrgð á bug,“ segir síðar í greininni. „Fyllilega réttmæt gagnrýnin hefði þó ekki átt að koma stjórninni í opna skjöldu því þar á bæ hafði vitneskjan um skaðsemi starfsháttanna lengi legið fyrir. Einnig lá fyrir önnur ábyrgð þar sem félagið hafði ráðstafað börnum á vöggustofuna og í fóstur innanbæjar. Þá vaknar spurningin hvers vegna ákveðið var að hunsa varnaðarorð sérfræðinga og ljá ekki máls á því að láta hvítvoðungana njóta vafans? Sem fyrr segir liggur fyrir að metnaður Svanfríðar Hjartardóttur, formanns, og stjórnar félagsins var mikill og allt bendir til að ákveðið hafi verið að álit Kristbjörns Tryggvasonar o.fl. hentaði betur en álit erlendra sérfræðinga og þremenningana. Þá féllu áform Thorvaldsensfélagsins einkar vel að áætlun borgaryfirvalda um að koma upp vistheimilum. Með framtaki félagsins var nokkur ábyrgð tekin af yfirvöldum og þau spöruðu jafnframt mikla fjármuni. Borgaryfirvöld hafa því eflaust hvatt stjórn Thorvaldsensfélagsins til dáða og stutt við áformin.“

Grein Árna má lesa hér: Þegar hugsjón verður skaðræði í framkvæmd. Hún lýsir á áhrifamikinn hátt hugmyndunum að baki vöggustofunni og hvernig stóð á því að svona ill meðferð ungabarna fékk staðist þrátt fyrir varnaðarorð. Þar spinnst saman ómannúðlegar hugmyndir og valdaþræðir.

Árni kemur að Rauða borðinu í kvöld, mánudagskvöld, og segir frá niðurstöðum rannsókna sinna.

Myndin er samsett, af Árna og úr vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Kristbjörn Tryggvason læknir er síðan á innfelldu myndinni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí