Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir Pírata hafa staðið eina í andstöðunni við breytingar á útlendingalögum í þinginu í vetur. Hún segist ekki skilja hvers vegna aðrir flokkar tóku ekki meiri þátt, því augljóst var að frumvarpið myndi leiða til mannúðarkrísu, eins og nú er komið fram. Fjölmörg samtök höfðu bent á það í umsögnum sínum. Og Þórhildur Sunna nefnir Samfylkinguna sérstaklega, vill fá að vita hvers vegna flokkurinn var ekki öflugri í andstöðu sinni gegn þessu vonda frumvarpi.
Þórhildur Sunna segir mörg dæmi þess að stjórnarandstaða hafi náð fram breytingum þrátt fyrir að frumvörp virðist hafa öruggan þingmeirihluta. Það sé því engin ástæða að gefast upp fyrir afgerandi þingmeirihluta, en breytingarnar á útlendingalögunum náðust fram með stuðningi allra ríkisstjórnarflokkanna og auk þess Flokks fólksins og Miðflokksins. Ef aðrir flokkar hefðu barist má vel vera að hægt hefði verið að forða þeim skaða sem nú blasir við. En það gerðist ekki, Píratar voru skyldir einir eftir í andstöðunni.
Á næstunni mun forystufólk stjórnmálaflokkanna koma að Rauða borðinu og ræða pólitíkina fyrir þingbyrjun. Þórhildur Sunna reið á vaðið. Var meðal annars falið að leysa samkvæmisleik: Hvaða þrjú mál myndi hún vilja leggja höfuðáherslu á, til dæmis ef mynduð yrði skammtíma ríkisstjórn um þrjú mikilvæg og brýn mál sem myndu stórbæta íslenskt samfélag. Þórhildur nefndi kvótakerfið, stjórnarskrá og heilbrigðiskerfið í þessari röð. Hún vill fyrningarleið í sjávarútvegi, t.d. með því að bjóða upp 5% kvótans árlega. Hún vill þjóðfund og einhvern vettvang líkan stjórnalagaþingi til að taka við frumvarpi Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá svo hægt sé að afgreiða hana., segir fullreynt að Alþingi ráði við verkefnið. Og Þórhildur Sunna vill stórátak í heilbrigðismálum til að vinda ofan af sveltistefnu undanfarinna áratuga. Hún segir það vísvitandi stefnu Sjálfstæðisflokksins að skapa neyðarástand í heilbrigðiskerfinu svo almenningur fallist á aukna einkavæðingu þar. Það sama eigi við um flóttamannamál. Fólki er hent út á götu svo almenningur fallist á flóttamannabúðir, sem í reynd verða fangelsi.
Þórhildur Sunna sagðist vilja Pírata í stjórn. Það sé takmarkað hverju flokkur í stjórnarandstöðu fær áorkað, hann geti haft áhrif á afstöðu og áherslur annarra flokka en litlu ráðið um stefnu samfélagsins. Og hún vill að kjósendur hafi afgerandi valkosti í kosningum. Segir vel koma til greina af Pírata hálfu að mynda einskonar blokk eða bandalag með öðrum flokkum, eins og víða er gert. Lýsa t.d. yfir að Píratar styðji Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingar, sem forsætisráðherraefni. En Þórhildur Sunna segist ekki hafa trú á að Samfylkingin myndi vilja taka þátt í slíku. Kristrún hafi tekið skýrt fram að hún vilji hafa alla möguleika opna, meðal annars stjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Sjá má og heyra viðtalið við Þórhildi Sunnu í spilaranum hér að neðan.