Sveitarfélög missa 19,7 milljarða vegna útsvarsleysis fjármagnstekna hinna tekjuhæstu

Í fyrra voru útsvarstekjur Grindavíkurbæjar 2.428,2 m.kr. Ef útsvar væri lagt á fjármagnstekjur hefðu þessar tekjur meira en tvöfaldast, 2.535,6 m.kr. bæst við. Tilfelli Grindavíkur í fyrra er sérstakt því þá seldu systkinin í Vísi fyrirtækið til Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað og fengu 20 milljarðar króna fyrir, tekjur sem skilgreindar voru sem fjármagnstekjur og báru því ekkert útsvar.

Fimm af systkinunum búa í Grindavík, Pétur Hafsteinn, Sólný, Kristín, Svanhvít Daðey og Páll Jóhann Pálsbörn. Ef útsvar væri lagt á fjármagnstekjur hefðu þau borgað 2.451,9 m.kr. í sveitarsjóð Grindavíkur. Margrét systir þeirra býr í Reykjavík og hefði 467,0 m.kr. í borgarsjóð ef útsvar væri lagt á fjármagnstekjur eins og launatekjur. Samanlagt héldu systkinin fimm því um 2.919 m.kr. eftir að söluverðinu sem hefði farið í útsvar ef sömu reglur giltu um tekjur sem fólk hefur af fjármagni og vinnu.

Er það réttlátt að útsvarstekjur Grindavíkur tvöfaldist þar sem systkinin seldu hlutabréf sín í Vísi? Lesendur geta velt því fyrir sér. Tóku aðrir í bænum þátt í að byggja upp þetta fyrirtæki? Auðvitað. Ef Síldarvinnslan ákveður að flytja kvótann og vinna hann fyrir austan mun það verða gríðarlegt áfall fyrir Grindavíkurbæ. Líklega hefðu önnur bæjarfélög sem hafa lent í þessu, að eigendur selji lífsbjörgina úr bænum, viljað fá eitthvað af söluverðinu til að milda höggið. Helst af öllu náttúrlega að kvótinn hefði ekki verið seldur.

En þessi sjónarmið eru ekki uppi í íslenskum skattalögum. Systkinin fimm sem búa í Grindavík borguðu tæplega 12,5 m.kr. samanlagt í útsvar til Grindavíkurbæjar. Af 16.973,2 m.kr. heildartekjum. Þau borguðu því 0,07% tekna sinna í útsvar þótt útsvarsprósentan í Grindavík hafi verið 14,4% í fyrra. Systkinin borguðu útsvar af launatekjum sínum en ekkert af fjármagnstekjum.

En dæmið af Vísis-systkinunum er kannski ekki það grófasta sem finna má í hátekjulista Heimildarinnar, þar sem finna má tekjuhæsta 1% landsmanna. Þorsteinn H. Guðbjörnsson er útgerðarmaður á Suðureyri og borgar útsvar til Ísafjarðarbæjar. Í fyrra nam útsvar hans 246.467 kr. Ísafjörður tekur 14,52% af launatekjum í útsvar sem framlag bæjarbúa til sameiginlegs rekstrar. Útsvar Þorsteins er því það sem kallað var vinnukonuútsvar í gamla daga, jafngildir því að Þorsteinn væri með 141 þús. kr. á mánuði í tekjur. En tekjur hans voru 434,3 m.kr. í fyrra eða 36,2 m.kr. á mánuði. Útsvarsprósenta Þorsteins var því ekki 14,52% eins og annarra bæjarbúa heldur 0,057%.

Haraldur Grétarsson var framkvæmdastjóri Deutsche Fischfang Union (DFFU) í Cuxhaven, hluta af Evrópuútgerð Samherja Holding ehf. Hann var með tekjur í fyrra sem jafngilda 19.660 þús. kr. á mánuði. Það eru um 49-föld lægstu laun verkamanna. Haraldur borgaði ekki krónu í útsvar til Reykjavíkur þar sem hann býr, allar tekjur hans voru fjármagnstekjur sem báru ekki útsvar. Verkamennirnir 49 sem höfðu sömu laun og Haraldur borguðu hins vegar 34,3 m.kr. í útsvar samanlagt af sínum lágu launum. Það var notað til að veita verkamönnunum og fjölskyldum þeirra þjónustu, svo sem leikskóla, grunnskóla, götur og aðra innviði. Og þeir borguðu auðvitað líka fyrir þjónustuna sem Haraldur fékk. Hann fær alla þjónustu í borginni en borgar ekkert fyrir hana.

Annað dæmi um fólk sem fær allt ókeypis frá sveitarfélaginu er Mar­grét Ásgeirs­dótt­ir fjárfestir, fyrrum eiginkona Skúla Mogensen. Hún var með 177,3 m.kr. í tekjur í fyrra en borgaði ekki krónu í útsvar til Reykjavíkur. Kristján Einarsson, eigandi Rekstrarvara, býr líka í Reykjavík án þess að leggja neitt til sveitarfélagsins, borgaði ekki krónu í útsvar í fyrra þótt hann hafi verið með 172,8 m.kr. í tekjur.

Við rekjum fleiri svona dæmi á Samstöðinni á næstunni.

Ef útsvar yrði innheimt af fjármagnstekjum myndi verða viðsnúningur í rekstri marga sveitarfélaga. Þau rembast nú við að veita þjónustu en hafa veika tekjustofna. Einu sinni innheimtu sveitarfélögin aðstöðugjald af fyrirtækjum, sem var einskonar útsvar fyrirtækja, greiðsla fyrir notkun á innviðum sveitarfélaga. Aðstöðugjaldið var aflagt snemma á nýfrjálshyggjuárunum og þá var líka ákveðið að fjármagnstekjur bæru ekki útsvar.

Ef við tökum aðeins fjármagnstekjur tekjuhæsta 1% landsmanna þá myndu þessi sveitarfélög fá þessu miklu meiri tekjur:

SveitarfélagÚtsvars-
prósenta
Tapaðar tekjur
af tekjuhæsta
1% landsmanna
Reykjavíkurborg14,52%5.987,7 m.kr.
Grindavíkurbær14,40%2.535,6 m.kr.
Kópavogsbær14,48%2.510,9 m.kr.
Garðabær13,70%2.283,5 m.kr.
Hafnarfjarðarkaupstaður14,48%1.356,8 m.kr.
Seltjarnarnes14,09%930,4 m.kr.
Akureyri14,52%758, m.kr.2
Mosfellsbær14,48%471,2 m.kr.
Reykjanesbær14,52%382,2 m.kr.
Snæfellsbær14,52%314,1 m.kr.
Vestmannaeyjar14,46%226,5 m.kr.
Árborg14,52%208,7 m.kr.
Fjarðabyggð14,52%190,6 m.kr.
Hornafjörður14,52%171,2 m.kr.
Ísafjarðarbær14,52%163,3 m.kr.
Borgarbyggð14,52%119,5 m.kr.
Skagafjörður14,52%86,6 m.kr.
Akraneskaupstaður14,52%78,1 m.kr.
Hrunamannahreppur14,52%77,1 m.kr.
Stykkishólmsbær14,52%68,5 m.kr.
Grýtubakkahreppur14,52%68,3 m.kr.
Grundarfjarðarbær14,52%63,3 m.kr.
Fjallabyggð14,52%54,7 m.kr.
Norðurþing14,52%47,8 m.kr.
Hörgársveit14,52%46,1 m.kr.

Samanlagt tapa sveitarfélögin 19.663,8 m.kr. vegna þess að útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur hinna allra tekjuhæstu. Í mörgum sveitarfélögum er þetta kostnaðarsamasti útgjaldaliðurinn, ef svo má segja, að gefa útsvar eftir til hinna ríku og tekjuháu.

Myndin er af systkinunum úr kynningarefni í tilefni af 50 ára afmæli Vísis fyrir nokkrum árum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí