Fjárfestar og tæknigeirinn bjóðast til að leysa vanda hjúkrunarheimila með umönnun án mönnunar

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á því í þingræðu í liðinni viku að á fjármálaáætlun til ársins 2028 virðist ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði nýrra sjúkrarýma. „Brotakennd þjónusta við eldra fólk er einn helsti vandi heilbrigðiskerfisins í heild,“ sagði hún. „Það sem er vanrækt í öldrunarþjónustu leiðir til ótímabærra innlagna á bráðamóttöku og sjúkrahús og síðan er fólk geymt á göngunum vegna skorts á hjúkrunarrýmum.“

Kristrún benti á að samkvæmt framkvæmdaáætlun eigi að byggja 394 ný hjúkrunarrými á landinu á næstu fimm árum, „þrátt fyrir að nú séu ríflega 400 manns á biðlista.“ Ef öll rýmin sem á að byggja verða komin í notkun á svæðinu árið 2028, sagði Kristrún, „má ætla að það vanti um 200 hjúkrunarrými ef við lítum til lýðfræðilegrar þróunar næstu árin. En látum það liggja á milli hluta. Stóra spurningin snýr að rekstri þessara rýma sem þó á að byggja.“

Samkvæmt svari heilbrigðisráðherra, sagði Kristrún, er rekstrarkostnaður 394 nýrra hjúkrunarrýma 6,8 milljarðar króna á ári. Í fjármálaáætlun til ársins 2028 virðist aftur á móti ekki gert ráð fyrir rekstrarkostnaði nýrra rýma. „Hvergi gat ég fundið 6,8 milljarða króna í viðbót,“ sagði Kristrún. „Hvernig stendur á þessu?“

„Fjölmörg úrræði“ á „breiðum grunni“

Heilbrigðisráðherra tók næstur til máls og reyndi ekki að láta líta út fyrir að gert væri ráð fyrir þessum rekstrarkostnaði í fjármálaáætlun, heldur gekkst við því að svo væri ekki, heldur vék að öðru. Hann sagði þjónustu við aldraða krefjast þess „af okkur að mæta henni með ýmiss konar úrræðum og búsetuúrræðum og aðhlynningu.“ Málið kalli á „fjölmörg úrræði“ á „breiðum grunni“ í „fjölmörgum áherslum“. Þess vegna fái „verkefnið Gott að eldast þetta vægi í stjórnarsáttmála vegna þess að ríkisstjórn horfir svona á málið. Það kallar á aukna heimahjúkrun, aukna endurhæfingu, aukna dagþjálfun, mjög markvissa stefnumótun, aðgerðaáætlun, framkvæmdaáætlun en líka aukinn sveigjanleika í að byggja upp hjúkrunarrými.“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingar, tók undir að gott væri að leggja áherslu á „að fólk geti verið sem lengst heima hjá sér.“ Hins vegar sé ekki hægt að horfa fram hjá því að „ á ákveðnum tímapunkti getur fólk bara ekki verið lengur heima hjá sér. Þá á fólk rétt á því að komast að á hjúkrunarheimili, fá hjúkrunarrými. Að láta aldraða bíða mánuðum saman eftir þessari nauðsynlegu þjónustu er óásættanlegt. Það verður að fjölga hjúkrunarrýmum.“

Útvistun og tæknilausnir

Sá „aukni sveigjanleiki í að byggja upp hjúkrunarrými“ sem ráðherrann minntist á í sinni ræðu er án efa fjölþættur. Ekki virðist ósennilegt að þar eigi hann meðal annars við aukna aðkomu einkaaðila, sem virðist hafa verið hvatt til á ráðstefnu sem ráðherrann setti í Hörpu á dögunum, undir yfirskriftinni „Eldri og betri“. Það er þó ekki eina ráðstefnan sem haldin var á sviðinu í þessum mánuði. Þann 18. september boðaði tæknifyrirtækið Origo til fundar á Grand Hótel þar sem umfjöllunarefnið var, að sögn fyrirtækisins sjálfs „starfsemi hjúkrunarheimila og hvernig tæknin getur nýst til að leysa áskoranir þeirra“. Í fréttatilkynningu fyrirtækisins kemur fram að þar hafi verið haldin fjölbreytt og fræðandi erindi, og miklir möguleikar séu í „velferðartækni“.

Ljósmynd úr kynningargögnum Origo fyrir viðburðinn á Grand hótel.

Þá er þar vitnað í Ingibjörgu Eyþórsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar og rekstrar hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu, um að betri tæknilausnir auðveldi störfin og þar af leiðandi sé þörf á færra starfsfólki. Í kynningargögnum fyrirtækisins mátti líka sjá orðfæri viðskiptalífsins ryðja sér til rúms á sviðinu, þar sem eldri borgarar með þörf fyrir umönnun verða að viðskiptavinum og notendum: „Markmið Heilbrigðislausna Origo,“ segir þar, „er að vinna náið með notendum í að leysa þeirra vandamál og þróa heildstæðar lausnir sem skapa virði fyrir viðskiptavininn og stuðla að auknu öryggi og bættri þjónustu í umönnun.“

Ljóst er að hvorki fyrirlesar ráðstefnunnar í Hörpu né fundi Origo á Grand Hótel móta stefnu stjórnvalda á sviðinu beint. En ef samkomurnar eru til marks um ríkjandi tíðaranda og þær lausnir sem eru efstar á baugi, virðist ekki fráleitt að ætla að nokkur vilji standi til að viðskiptavæða sviðið og forðast um leið að aukin umönnun aldraðra birtist í auknum útgjöldum úr sameiginlegum sjóðum, jafnvel allra síst í launaútgjöldum. Þegar Kristrún finnur hvergi gert ráð fyrir rekstrarkostnaði nýrra hjúkrunarrýma í fjármálaáætlun getur hugsast að það sé vegna þess að heilbrigðisráðherra bíði eftir að einkageirinn reiði fram töfralausnir af sínum toga.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí