Ísrael vill kenna SÞ lexíu eftir að Guterres sagði árás Hamas „ekki hafa gerst í tómarúmi“

Ísrael ætlar að meina fulltrúum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um inngöngu í landið „til að kenna þeim lexíu“, í kjölfar ræðu sem Antonio Guterres, aðalritari SÞ, flutti á þriðjudag, þar sem hann sagði að skoða þyrfti árásir Hamas þann 7. október í samhengi við áratuga langt hernám Ísraels yfir Palestínu, árásin hefði ekki gerst „í tómarúmi“. Þá hefur sendifulltrúi Ísraels innan SÞ krafist afsagnar Guterres vegna ummælanna.

Viðurstyggilegar árásir réttlæti ekki hóprefsingu

Í ræðunni á þriðjudag sagði Guterres árás Hamas vera „skelfilega og fordæmalausa“ og krafðist þess að þeim 200 manns sem samtökin hafa í gíslingu verði sleppt. Þá ítrekaði Guterres kröfu sína um vopnahlé á Gasa og sagði að alþjóðalög væru brotin í stríðinu á milli Ísraelsríkis og Hamas. „Það er mikilvægt að viðurkenna að árásir Hamas áttu sér ekki stað í tómarúmi. Palestínska þjóðin hefur verið undir oki 56 ára kæfandi hernáms,“ sagði Guterres í ræðunni. Hann bætti því við að áþján Palestínumanna „geti ekki réttlætt hinar viðurstyggilegu árásir Hamas. Og þær viðurstyggilegu árásir geta ekki réttlætt hóprefsingu Palestínumanna.“

Guterres sagði að það að verja óbreytta borgara gæti ekki falið í sér að skipa milljón manns að flytja sig sunnar, „þar sem er ekkert skjól, enginn matur, ekkert vatn, engin lyf og ekkert eldsneyti, og halda svo áfram að varpa sprengjum á suðurhlutann einnig.“

Bretland tekur undir gagnrýni Ísraels

Sendiherra Ísraels á vettvangi SÞ, Gilad Erdan, sagði ræðuna hafa verið „sláandi“: „Fullyrðingar hans um að árásir Hamas hafi ekki átt sér stað í tómarúmi lýstu skilningi á hryðjuverkum og morðum,“ skrifaði hann á X/twitter. „Það er sannarlega dapurlegt að stjórnandi stofnunar sem reis upp úr helförinni hafi svo skelfileg viðhorf.“ Sendiherrann hefur í kjölfarið sett fram kröfu um afsögn aðalritarans.

Deilan um ummæli Guterres hefur magnast hratt – á miðvikudag lýstu bresk stjórnvöld samstöðu með Ísrael í málinu. Robert Jenrick, innanríkisráðherra landsins, sagði að bresk stjórnvöld litu ekki svo á að Ísrael hefði brotið alþjóðalög. „Það er skýr réttur þjóða, samkvæmt alþjóðalögum, til að verjast og það er það sem Ísrael er að gera. Við viljum sjá Ísrael, hvar sem það er hægt og það er afar erfitt að gera, grafa undan og uppræta Hamas eins og með skurðaðgerð. Það er það sem þau eru að reyna að gera,“ sagði Jenrick í viðtali við Sky News. Á miðvikudag tók Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, undir með gagnrýni á ummæli Guterres en tók um leið fram að bresk stjórnvöld krefðust ekki afsagnar hans.

Þýskaland og Portúgal styður Guterres

Þýsk stjórnvöld lýstu því yfir á miðvikudag að Guterres njóti stuðnings þeirra. Þá sagði utanríkisráðherra Portúgals, João Gomes Cravinho, á miðvikudag að þarlend stjórnvöld styddu afstöðu Guterres til stríðsins. „Við skiljum fyllilega og tökum undir afstöðu Antonio Guterres,“ sagði Cravinho, „sem var afdráttarlaus þegar hann fordæmdi hryðjuverk Hamas. Það er engin leið að segja að Antonio Guterres hafi á nokkurn hátt verið að réttlæta hryðjuverk.“

Árás Hamas þann 7. október varð að minnsta kosti 1.400 manns að bana, að meirihluta óbreyttum borgurum. Þegar þetta er skrifað, miðvikudaginn 25. október, hafa síðan þá yfir 6.500 manns látist í loftárásum Ísraels á Gasa. Sameinuðu þjóðirnar hafa farið fram á vopnahlé en Bandaríkin segja það ótímabært. Stjórnvöld flestra vestrænna ríkja, að Íslandi meðtöldu, neita enn sem komið er að krefjast vopnahlés.

Heimild: Al Jazeera, The Standard, BBC, Politico, Independent. Ræðu aðalritarans má finna á vef SÞ.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí